136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:50]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hér er um skamman tíma að ræða en það helgast af því að við sem höfum lagt fram þessa tillögu berum þá ósk í brjósti að hún geti gagnast þeim sem þurfa að greiða af lánum sínum 1. desember. Það ræðst auðvitað af þinginu, þingið er með málið til meðferðar og félags- og tryggingamálanefnd og ég verð að sætta mig við þá niðurstöðu sem verður í nefndinni. En ég legg áherslu á að málinu verði hraðað.

Þetta getur ekki komið í staðinn fyrir þau greiðsluerfiðleikaúrræði sem nú eru til staðar hjá Íbúðalánasjóði, við erum að tala um að greiðslubyrðin lækki hjá þeim sem velja þetta úrræði og það er einfaldlega þess vegna sem við leggjum áherslu á að þessu verði hraðað. (Gripið fram í.) Ég fór ekki yfir þau dæmi en ég get nefnt sem dæmi að verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að greiðslubyrði verðtryggðra fasteignalána gæti minnkað strax í desember. Þannig gæti afborgun af 30 millj. kr. láni sem ber 5% vexti og er til 40 ára orðið 10 þús. kr. lægri í desember og ég geri ráð fyrir að einhverja muni um 10 þús. kr. nú í aðdraganda jólamánaðar.

Hv. þingmaður spyr líka um lækkun á eigin fé. Við höfum farið nákvæmlega yfir hvað þetta mundi þýða. (Gripið fram í.) Við erum að tala um að þetta geti haft þau áhrif og hefur þau áhrif að lausafjárstaða og ekki síst hjá bönkunum gæti versnað og þess vegna þurfi ríkisstjórnin með atbeina Seðlabankans að koma þar inn. Það fer auðvitað eftir því hve margir velja sér þetta úrræði. Ef allir með verðtryggð lán velja sér þetta úrræði gæti lausafjárstaða þeirra versnað um einhvers staðar á bilinu 10–13 milljarða kr. (Forseti hringir.) En það miðast við að allir fari að nýta sér þetta úrræði sem ég hef ekki trú á að allir geri.