136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur farið ágætlega yfir sjónarmið sín varðandi það frumvarp sem hér er lagt fram og haft áhyggjur af því að það verði keyrt of hratt í gegn. Hann hefur einnig bent á að hann hafi áhyggjur af því að þær tillögur sem hér eru lagðar fram miðist við að frestun sé á greiðslu, fyrst og fremst sé verið að létta greiðslubyrði til skamms tíma en ef menn horfi til lengri tíma verði fólk að greiða þetta. Skilja mátti á ræðu hv. þingmanns að ef menn felldu þetta að einhverju leyti niður væri verið að bjarga einhverjum skuldareigendum en svo óheppilega vill til að skuldareigendur sýnast mér í þessu tilfelli eingöngu vera ríkisbankarnir, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir. Við erum þá að tala um að fella þetta niður þar og færa það yfir á milli þessara aðila. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það endi ekki hvort sem er á ríkissjóði og hvort honum finnist eðlilegra að það sé greitt í gegnum skattkerfið en með þeim hætti sem þarna er og taka þá á því síðar ef ástæða er til að fella niður skuldir með öðrum aðferðum þar sem þá verði felldar niður skuldir á þeim sem á því þurfa að halda.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður sé sammála mér um að við eigum að stefna að því að þetta komi til framkvæmda fyrir 1. desember, við tökum þann tíma sem við höfum miðað við að það náist. Verði það niðurstaðan að þessu verði að ljúka í dag til að það sé hægt mun hv. þingmaður styðja okkur í vinnunni í efnahags- og tryggingamálanefnd? Annars tökum við þá tíma fram á fimmtudag — svo óheppilega vill til að ekki eru fundardagar í þinginu á morgun og á miðvikudag. Við tökum það þá fyrir á fimmtudag ef við höfum tíma til þess. (Forseti hringir.) Mig langar að fá svar við þessum tveimur spurningum.