136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig undrar satt að segja að heyra hv. þm. Kristin H. Gunnarsson lýsa því yfir að hann telji að ekki sé önnur leið betri en að velta þessu verðbólguskoti yfir á herðar húseigenda. Ég hefði talið að hjá honum og flokki hans væri meiri áhugi á því að taka verðtrygginguna af en mér fannst speglast í orðum hans.

Menn tala mikið um hvaða áhrif það kunni að hafa á eigið fé banka og lífeyrissjóða, sem þegar hafa tapað milljörðum á hlutabréfabraski, og á eigið fé Íbúðalánasjóðs. En hvaða áhrif hefur það á eigið fé þeirra sem eiga húsnæði í landinu, hvaða áhrif hefur það á eigið fé íbúðareigenda á Íslandi? Hvað rýrnar eignarhlutur þeirra mikið í húsnæðinu ef þetta verðbólguskot verður látið ríða yfir óáreitt? Menn hafa bent á að það sé allt í lagi því að Íbúðalánasjóður og bankarnir kunni að eignast íbúðina og leigja viðkomandi, leyfa honum að vera þar áfram. Þá spyr ég: Hver mun svo eignast þá kröfu? Hver mun allt í einu eiga íbúðina á móti viðkomandi?

Ég tel að horfa verði á dæmið í heild, ekki bara út frá hagsmunum lánveitenda heldur líka út frá hagsmunum húseigenda sem eiga nú að taka á sig ómældar byrðar sem gjaldþrotastefna nýfrjálshyggjunnar hefur kallað yfir landið. Mér þykir miður að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli ekki líta þetta sömu augum og ég geri.