136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ekki er í fjárlögum gert ráð fyrir tekjum sem stimpilgjöldin hefðu haft í för með sér, vegna þess að menn áttu ekki von á því að þær aðstæður kæmu upp að menn þyrftu að skuldbreyta eða gera skilmálabreytingar á lánum sínum. Engu að síður, samkvæmt lögum í þessu landi, hefði viðkomandi þurft að borga bæði stimpilgjöld og þinglýsingargjöld og annan kostnað af slíkum skilmálabreytingum. Þess vegna verð ég að segja að úrræðið sem er kynnt í dag og það hvernig í pottinn er búið, að menn geti farið í þetta án þess að í því felist kostnaður — við skulum ekki gleyma því heldur að fjármálastofnanir taka á sig kostnað út af ýmsum þáttum sem varða þær.

Þetta úrræði getur skipt verulegu máli. Hitt er annað mál og ég get alveg tekið undir það hjá hv. þingmanni að við þurfum að gera ýmislegt fleira og átta okkur á hvað á að gera. Enn þá vitum við hvorki hversu stór vandi okkar er né hversu langvinnur. Við verðum líka að átta okkur á því að við getum ekki gripið til allra þeirra aðgerða í dag án þess að vita nákvæmlega hvaða afleiðingar það hefur eftir eitt ár ef vandinn verður svo mikill á næsta ári að meira dragist saman. Við höfum bara ákveðið fjármagn og það þarf að stilla hlutunum saman.

Varðandi það að ekkert annað væri í þessu en hlutir sem kosta ekki neitt er verið að leggja til hér t.d. að lög um dráttarvexti verði endurskoðuð með lækkun þeirra í huga. Við þurfum ekki að fara yfir hvers konar kostnaður er að vera með 28% dráttarvexti eða svo, þannig að ég held að slíkir hlutir muni nú skipta máli. Ég held einnig að ósanngjarna atriðið, sem ég vil taka svo, skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum, allt eru þetta úrræði sem munu hafa góð áhrif á þá sem geta nýtt sér þau. Ég held því að ekki sé sanngjarnt af hv. þingmanni að líta svo á að ríkisstjórnin sé að reyna að gera eitthvað sem kosti ekki neitt og þori ekki að setja peninga í þessa hluti. Ég lít ekki svo á.