136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[18:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að ríkisstjórnin þyrði ekki, ég spurði hvort það væri stefnan. Ég efast nefnilega um að hún vilji það.

Menn hafa talað um að með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir sé verið að lengja í hengingarólinni. Ég verð að segja að þegar hv. þingmaður fór að nefna dráttarvextina datt mér annað hug, þ.e. þegar nefnd er snara í hengds manns húsi, vegna þess að stýrivextirnir, sem þessi ríkisstjórn lét Alþjóðagjaldeyrissjóðinn pína sig í að samþykkja og er meira að segja búin að samþykkja að hækka vexti enn frekar, leggja grunninn að dráttarvöxtunum, hv. þingmaður, og því að þeir skuli nú vera komnir hátt í 30%.

Þó að barnabætur verði ekki jafnaðar á móti sköttum og vaxtabætur verði ekki dregnar frá afborgunum lána er það svo, hv. þingmaður, að skattaskuldin verður ekki felld niður. Hún bíður bara og safnar vöxtum. Afborganir verða heldur ekki felldar niður, þær bara safna sínum vöxtum og bíða frekari tíma. Þarna er líka verið að tala um að greiða út barnabætur í hverjum mánuði, sem er sanngjarnt og eðlilegt. Ég hefði viljað sjá að barnabætur væru hækkaðar við þessar aðstæður. Það er enginn útgjaldaauki af því hjá ríkissjóði að greiða tólf sinnum út barnabætur á árinu í stað þess að greiða þær fjórum sinnum.

Þannig er þetta, herra forseti, þessar aðgerðir sem hér voru auglýstar. Eftir stendur að kostnaðurinn sem ríkisstjórnin er tilbúin til þess að leggja í að létta byrði af heimilunum er fólginn í að endurgreiða gjöld af útfluttum bílum. Menn kalla þetta „Range Rover-skattinn“. Þekkir hv. þingmaður það orð? Nei. Skilur hann það? (Gripið fram í: Nei.) Nei. Það er sagt vera vegna þess að það sé svo mikið til af dýrum bílum sem hafa verið fluttir inn til landsins í gróðærinu að það þurfi sérstakan atbeina ríkissjóðs (Forseti hringir.) til þess að eigendurnir geti komið þeim úr landi í sölu.