136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:37]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er löng reynsla af samstarfi stjórnvalda við einkaaðila varðandi rekstur í heilbrigðisþjónustu og eins og nokkuð oft hefur komið fram á hinu háa Alþingi þá eru um 30% af heilbrigðisþjónustunni í höndum annarra rekstraraðila en ríkisins.

Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar kemur fram að það eigi að fjölga rekstrarformum og auka samstarf við einkaaðila, eða eins og segir í málefnasamningnum: að það verði skapað svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi jafnan aðgang að henni, óháð efnahag.

Eins og hv. þingmaður veit voru lög um heilbrigðisþjónustu samþykkt á hv. Alþingi á vordögum 2007. Þau lög voru afrakstur af vinnu sem m.a. fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og annarra stjórnmálaflokka komu að og þar lá að baki þriggja ára vinna þar sem í fyrsta sinn var skapaður rammi um samninga ríkisins við aðra aðila um rekstur í heilbrigðisþjónustu. Þessi ákvæði heilbrigðisþjónustulaga fóru síðan í ný lög um sjúkratryggingar sem voru samþykkt á haustþingi í september sl. Í framhaldi af því var sett á laggirnar ný stofnun sem tók til starfa 1. október sl. Hlutverk hinnar nýju stofnunar, Sjúkratryggingastofnunar, er að annast kaup á vörum og þjónustu sem henni ber að veita og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og jafnframt að hafa eftirlit með gæðum og árangri, starfsemi þeirra sem samið er um. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum er því alveg ljós, þ.e. að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og jafnframt að nýta þau tækifæri sem gefast til að hefja samstarf við einkaaðila, jafnt þá sem nú þegar eru starfandi á þessu sviði og aðra. (Forseti hringir.)