136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:43]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Enn og aftur er rétt að árétta það og fara yfir hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð greiddi atkvæði og með hvaða hætti þeir studdu breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það er margt gott í þeim lögum en í þeim eru kaflar sem við greiddum atkvæði gegn og rökstuddum það út frá okkar pólitík og hugmyndafræði. Það skal standa og ég vona að fólk muni eftir því þó svo að við höfum stutt heildarlögin með þeim fyrirvara að við treystum því að það yrði farið vel með ákvæðin um einkavæðinguna.

Það er líka alveg rétt að heilbrigðisþjónustan hér á landi hefur að nokkrum hluta verið rekin í einkarekstri en sá einkarekstur hefur að mestum hluta eða að stórum hluta verið hjá sjálfseignarstofnunum sem hafa rekið öldrunarþjónustuna og svo í síauknum mæli hjá sérfræðingum. Við teljum að það þurfi að hafa hemil á slíkri sérfræðiþjónustu utan heilbrigðisstofnana, hún hefur verið eins konar óplægður akur og í raun sjálftaka hjá mörgum. Í þeim aðstæðum og í því umhverfi sem nú er að skapast verðum við að horfa til þess að reyna að draga úr kostnaði og styrkja heilbrigðisþjónustuna og þá grunnþjónustu sem hefur verið rekin. Að það sé verið að fara í aukinn einkarekstur og að það sé stutt við fyrirtæki sem stunda heilbrigðisþjónustu með kröfu um arðsemi, fyrirtæki sem taka arð út úr þjónustunni, það er nýtt í okkar umhverfi. Þegar við þurfum að fara að spara þá eigum við auðvitað ekki að stuðla að starfsemi þar sem verið er að koma á fót fleiri fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustunni sem rekin er á arðsemiskröfum.