136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þekkja margir sem hafa staðið í erfiðum deilumálum, og ég hygg að það eigi ekki síst við um lögfræðinga sem gjarnan þurfa að reka slík mál, að það tekur stundum tíma fyrir báða aðila að skilja vel sjónarmið hins aðilans. Það sem við náðum í rauninni fram í þessari deilu, held ég, var aukinn skilningur viðsemjenda okkar á þeirri stöðu sem við vorum í og aukinn skilningur þeirra á því að þetta yrði þá fyrst og síðast að snúast um lágmarkstryggingar.

Auðvitað voru uppi sjónarmið í aðra veru hjá Bretum þegar þessi deila hófst, þ.e. að þetta næði ekki einvörðungu til lágmarkstryggingarinnar, sem er 20.887 evrur, heldur til hærri upphæða á þessum innlánsreikningum í Bretlandi. Þar voru menn að tala um gríðarlegar upphæðir sem hefðu verið, eins og kom fram í umræðunni, drápsklyfjar fyrir okkur Íslendinga og fólk framtíðarinnar. (Forseti hringir.) Það náðist því ákveðinn skilningur í þessari deilu.