136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:46]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel víst að það sé átt við þau samtöl sem fóru fram þessa helgi og dagana kringum hana af hálfu breskra ráðamanna við okkur hér heima. Ég átti þátt í nokkrum slíkum samtölum, seðlabankastjórinn líka. En eina ályktunin sem hægt er að draga af þeim samtölum gagnvart þessari beitingu hryðjuverkalaga nokkrum dögum síðar er það spursmál sem upp hefur komið og þingmaðurinn vék að, hvort a.m.k. einn bankinn, þ.e. Kaupþing, hafi flutt fjármagn með óeðlilegum hætti frá Bretlandi til Íslands. Þetta hefur komið fram opinberlega en þessu hefur líka verið svarað opinberlega af hálfu Kaupþings, að ekkert slíkt hafi átt sér stað og þeir geti gert nákvæma grein fyrir öllu fjármagnsflæði á milli landanna á þessum tíma. Þarna stendur þá orð gegn orði eða ásökun af hálfu Bretanna gegn því svari sem fram er komið af þeirra hálfu.

Reyndar var hryðjuverkalögunum ekki beint gegn Kaupþingi. Þeim var beitt gegn Landsbankanum vegna þess að Kaupþing var breskur banki, Singer & Friedlander var breskur banki og þar með höfðu þeir önnur tök á þeim banka en Landsbankanum og fóru með fjármálaeftirlit sitt inn í Kaupþing, eins og alræmt er nú orðið og er líka hugsanlegt tilefni málaferla. En þetta er önnur saga en ég tel að þetta hljóti að vera skýringin ef menn vilja vera að leita að einhverri einni skýringu á þessu atriði.

Allt er þetta mjög ömurlegur þáttur í þessu máli. Málið er náttúrlega margþætt, hrun bankanna, efnahagslegar afleiðingar þess o.s.frv. En þetta tiltekna atriði, beiting þessara laga, frysting eigna á grundvelli þessara laga í Bretlandi, það er alveg ömurlegur hluti af þessu og kallar á sérstaka athugun og kannski málaferli.