136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það ætti að vera öllum ljóst að ríkisstjórnir, ekki síður en aðrir í þeim löndum sem eru að hjálpa okkur, gerðu það að skilyrði að við tækjum líka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ég vona innilega að það sé rétt, sem kemur fram í grein hinna þriggja vísu hagfræðinga í Morgunblaðinu, að mjög stutt sé í að krónan nái jafnvægi og fari að hækka á ný þegar hún verður sett á flot eins og það er kallað og tiltölulega lítið þurfi þá að ganga á gjaldeyrisforða Seðlabankans þegar viðskiptin aukast, þegar viðskipti með vörur og þjónustu og ferðamannagjaldeyri, og svo síðar fjármagnsflutningar, fara af stað á eðlilegan hátt.

Það skiptir máli þegar þetta er gert að ljóst sé að Seðlabankinn geti gripið til einhverra ráðstafana ef í óefni stefnir og eins að nægjanlegur gjaldeyrir sé til þess að geta staðist það að miklir fjármagnsflutningar verði þó að þeir verði í skamman tíma. Það er því engin þversögn í því að vera með sterkan gjaldeyrisforða, byggðan á láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannalöndum okkar, til viðbótar við það sem Seðlabankinn þegar hefur, og því sem segir í grein hagfræðinganna. Mér segir svo hugur að ef aðstæður eru eins og þeir spá verði framkvæmdin mjög nálægt því sem þeir leggja til. Það er ekkert markmið, hvorki ríkisstjórnarinnar né Seðlabankans, að dæla peningum inn á gjaldeyrismarkaðinn. Það er ekkert verið að eyða þeim peningum því að sá gjaldeyrir yrði keyptur fyrir krónur og, herra forseti, þær krónur væri hægt að nota hér innan lands í atvinnulífið (Forseti hringir.) og þar fram eftir götunum.