136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:17]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar frá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni kemur mér ekki á óvart. Hann, þessi hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsir því í raun að hann hafi talið þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi frá síðustu aldamótum ekki nægjanlega vel grundaða og að óvarlega hafi verið farið að.

Ég gat nú eiginlega ekki skilið annað en hann hafi talað um að þar hefði ekki verið gætt nægjanlega að hvað varðar einkavæðingu bankanna, með hvaða hætti það var gert og hvernig vöxtur þeirra var. Þá gat ég heldur ekki skilið ummæli hv. þingmanns öðruvísi en að hann teldi að lánveitandinn til þrautavara sem um var að ræða, þ.e. Seðlabanki Íslands hefði ekki verið nógu öflugur.

Þá er nú eitt til að taka hvað það varðar. Alþingi afgreiddi í vor heimild til lántöku. Beðið var um það af hálfu ríkisstjórnarinnar til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Lánið var ekki tekið og þessi gjaldeyrisvaraforði er ekki til. Þar af leiðandi var hann ekki tiltækur þegar á þurfti á halda þegar lánalínur Lehman Brothers lokuðust.

Miðað við hvernig hv. þingmaður færir rök fyrir sínu máli get ég ekki skilið annað en hann sé í raun að lýsa fullri ábyrgð á efnahagsstjórninni og hruni bankans á Seðlabanka Íslands og efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Ég get ómögulega skilið annað en að það sé það sem liggur fyrir og ástæðan alls þessa miðað við hvernig hv. þingmaður rökfærir mál sitt.