136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:47]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Vissulega er fyrst litið til Landspítalans þegar horft er á hinar háu upphæðir og litið til þess hvar mest er hægt að spara. En það skiptir líka miklu máli hvernig staðið er að rekstri heilbrigðisstofnana út um allt land því margar þeirra eru valtar þegar í dag og eiga við fjárhagserfiðleika að stríða. Og ef það kemur líka til skerðingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að dvalarheimilisþjónustan verður skert og heimaþjónustan verður skert þá er ekki hægt að segja að við stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á og ríkisstjórnina alla, að fjárlagafrumvarpið liggur núna hjá Alþingi. Ég hefði talið að samkvæmt þeim lögum og reglum sem við vinnum eftir að það væri höfuðverkur Alþingis að vinna úr þeim vanda sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í, að vinna að fjárlagagerðinni og þeim tillögum og breytingum á fjárlögum sem liggja fyrir, hvort sem það heitir niðurskurður eða (Forseti hringir.) hvort Alþingi hefur aðrar áherslur en ríkisstjórnin í þessum málum.