136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

hlutafélög og einkahlutafélög.

145. mál
[13:31]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, mál nr. 145 á þingskjali 161.

Með þessu frumvarpi, sem samið var í viðskiptaráðuneytinu, er stefnt að því að einfalda reglur í lögum um hlutafélög og jafnframt í lögum um einkahlutafélög við samruna og skiptingu án þess þó að slíkt dragi úr vernd hluthafa og lánardrottna. Gert er ráð fyrir að sleppa megi skýrslugjöf utanaðkomandi aðila um samrunaáætlun ef allir hluthafar í samrunafélögum samþykkja. Er talið að ákvæðin dragi helst úr kostnaði hjá litlum félögum, t.d. við samruna innan samstæðu. Má þá nefna tvö systurfélög sem einn og sami hluthafi á. Slíkur samruni getur alloft átt sér stað. Ákvæðin eiga rætur sínar að rekja til áætlunar Evrópusambandsins um að draga úr stjórnsýslubyrðum.

Um er að ræða innleiðingu á ákvæðum varðandi hlutafélög í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/63/EB frá 13. nóvember 2007 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/855/EB og 82/891/EB að því er varðar kröfu um skýrslu óháðs sérfræðings í tengslum við samruna eða skiptingu hlutafélaga. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2008 frá 25. apríl 2008 um breytingu á XXII. viðauka félagaréttar við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

Tilskipunin tekur til hlutafélaga en gert er ráð fyrir samsvarandi breytingum til einföldunar í lögum um einkahlutafélög, enda ákvæði um samruna og skiptingu svipuð í báðum lögunum. Breytingarnar á almennum ákvæðum um samruna og skiptingu leiða síðan til þess að gera þarf samtímis smávægilegar breytingar á ákvæðum framangreindra laga um millilandasamruna og millilandaskiptingu þar sem reglur eru einfaldari fyrir.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Að öðru leyti vísa ég í athugasemdir með frumvarpinu og vænti þess, virðulegi forseti, að því verði vísað til viðskiptanefndar að lokinni umræðu.