136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég túlka það sem svo að hæstv. iðnaðarráðherra hafi viljað koma ýmsum athugasemdum sínum á framfæri í því formi sem andsvarið er. Að minnsta kosti fann ég ekkert í orðum hæstv. iðnaðarráðherra sem var bein gagnrýni á það sem hann sagði að ég hefði sagt nema þá helst varðandi 4. gr. þar sem ég sagði að ég teldi að það væri mjög spennandi að fara þessa leið og gæti verið þarft að reyna að ná upplýsingum frá einhverjum innanbúðar í svona flóknu máli og erfiðu, það væri okkur til hagsmuna. Ég er alls ekki andsnúin þessu ákvæði, það má ekki skilja mín orð þannig. Ég tel þetta einmitt frekar spennandi og þarft en ég tel að við verðum að lúslesa ákvæðið og gæta okkar um leið. Við verðum að koma því þannig fyrir að uppljóstrari geti ekki komið sjálfum sér undan ef mjög mikil refsing liggur við hans hlut. Miðað við fyrsta lestur á greininni skil ég þetta þannig.

Við höfum ekki fengið neinar athugasemdir og það á auðvitað eftir að vinna þetta allt í nefndinni en hér er verið að reyna að setja það inn í greinina að séu brotin stórfelld og það kemur hér fram, virðulegi forseti, það er skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn.

Það er verið að reyna að skrifa það inn í greinina að brot viðkomandi sem uppljóstrar sé minna en brotið sem hann ljóstrar upp um, ef ég get orðað þetta þannig. Ég er því frekar jákvæð gagnvart þessu ákvæði og efast um að (Forseti hringir.) hægt sé að fá mikið út úr rannsókn nema með einhverri aðstoð uppljóstrara. Ég hugsa að það væri mjög til bóta.