136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt til getið hjá hv. þingmanni að ég taldi að mál hennar hefði verið sett fram með þeim hætti í ræðu hennar áðan að í því fælist hugsanleg gagnrýni á þetta ákvæði. Hv. þingmaður orðaði það svo að nefndin þyrfti að skoða það mjög vel. Auðvitað er ég því sammála að þingnefndin skoði frumvarpið allt mjög vel.

En nú hefur hv. þingmaður skýrt mál sitt og ég held að við séum meira og minna sammála um þetta ákvæði. Við erum bæði þeirrar skoðunar að það sé mjög þarft að uppljóstrara sé veitt vernd. Ég hef skilið þetta ákvæði þannig að þeim sem kemur fram með upplýsingar um eitthvað sem saknæmt gæti talist verði veitt vernd gegn því að brjóta hugsanlega ákvæði annarra laga sem meina honum að koma fram með upplýsingar, að óbreyttum lögum, vegna þess að um þær gildi bankaleynd. Ég hef ekki skilið það svo að sá sem kæmi fram með slíkar upplýsingar gæti með þeim hætti með einhverju móti dregið úr hugsanlegum refsingum og viðurlögum sem hann ætti að sæta vegna þess að hann væri sjálfur aðili að einhvers konar saknæmu atferli sem tengdist fjárhagslegum brotum.

Ég hef litið svo á og skilið þetta ákvæði með þeim hætti að þarna væri fyrst og fremst verið að laða fram upplýsingar um meiri háttar fjárhagsleg brot. Og gegn því að menn kæmu fram með þær og legðu á borðið þá væri verið að tryggja að sá sem það gerði mundi ekki verða látinn sæta refsingum vegna þess að hann hefði brotið skýr ákvæði laga um bankaleynd.