136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:13]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þær hörmungar sem hafa riðið yfir okkar íslenska samfélag á síðustu vikum snerta auðvitað hvern einasta íbúa þessa lands. Við finnum öll fyrir hækkandi verðlagi. Við finnum öll fyrir hækkandi lánum og við þekkjum öll fólk sem hefur misst atvinnu sína og er í raun uggandi um framtíð sína og sinnar fjölskyldu. Þá kemur stjórnarandstaðan hingað inn á þingið, forgangsraðar og segir: Við viljum vantrauststillögu samþykkta.

Ég tel önnur verkefni mikilvægari og brýnni en það. Við erum að upplifa mikla óvissutíma og það skiptir miklu að okkur takist sem allra fyrst að brjóta okkur leið út úr erfiðleikunum og hefja hér að sjálfsögðu uppbyggingu á atvinnustarfsemi og eflingu lífskjara á nýjan leik.

En þjóðin er reið, og hún er skiljanlega reið. Það eru mjög margir sem spyrja sig spurningarinnar: Af hverju gerðist þetta? Og yfir það verður að fara. Mörg mistök hafa nefnilega verið gerð. Stjórnmálamenn hér innan þingsins hafa gert mistök. Líka þeir sem hafa setið í lífeyrissjóðum þeirra banka sem tóku þátt í uppbyggingunni. Fjölmiðlamenn hafa gert mistök. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa líka gert mistök, en fyrst og síðast liggur að sjálfsögðu ábyrgðin hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna, forsvarsmönnum bankanna sem fóru af ákveðnu ábyrgðarleysi með það frelsi og það svigrúm sem þeim var veitt.

Ég krefst þess, líkt og aðrir, að aðdragandi hrunsins verði rannsakaður til hlítar og að við hér á þinginu dveljum ekki lengur við það að móta rannsóknarnefndina, heldur að hún komi fram og fari strax yfir alla þætti. Ég fagna því sérstaklega að um það náðist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Á hverjum degi berast nefnilega fréttir af ýmsum gjörningum sem vekja upp spurningar. Þeim spurningum verður að svara.

Við verðum að fara yfir fortíðina á trúverðugan hátt þannig að það veki traust meðal þjóðarinnar og þannig að við getum líka nýtt þá vitneskju til að byggja upp til framtíðar fyrir börnin okkar. Sú skýrsla sem vonandi lítur dagsins ljós að ári liðnu má ekki verða að neinni skúffuskýrslu. Við verðum að nýta þá skýrslu enn frekar til uppbyggingar í samfélaginu. Vinna rannsóknarnefndarinnar verður að vera algjörlega gegnsæ. Engan skal furða nú í ljósi okkar sáru og bitru reynslu að margar spurningar vakni um hvernig bankarnir hyggist koma að enduruppbyggingu íslensks atvinnulífs. Fólk verður að geta treyst því að t.d. afgreiðsla nýju bankanna þoli skoðun úr öllum áttum. Ég hef sagt það áður og ítreka nú að allt verður að vera uppi á borðum. Ef svo er ekki geta jafnvel eðlilegustu viðskipti fengið á sig grunsamlegan blæ. Nýju bankarnir verða að marka nýtt upphaf, og ábyrgð þeirra sem þar hafa valist til forustu og í bankaráðin er að sjálfsögðu mikil.

En á sama tíma og við gerum upp við fortíðina verðum við að byggja upp fyrir framtíðina. Við verðum að búa hér til verðmæti. Við verðum að búa til störf. Þar er að sjálfsögðu ekkert undanskilið. Við verðum þó fyrst og fremst að koma á stöðugleika í gengismálum. Einungis þannig tryggjum við að þjóðin geti rétt úr kútnum, að verðbólgan hjaðni, að lánin okkar hætti að bólgna út og við náum að fóta okkur á nýjan leik.

En það, hæstv. forseti, gerist að sjálfsögðu ekki á einni nóttu. Þangað til verðum við að nýta tímann til að grípa til margháttaðra aðgerða til að milda höggið, hvort sem er vegna húsnæðislána, námslána, áhrifa atvinnuleysis eða annarra þátta sem hafa áhrif á afkomu fólksins. Og við erum byrjuð. Við erum byrjuð að slá skjaldborg um íslensk heimili á þessum erfiðu tímum. Nú þegar hefur margt verið gert og margt er í pípunum en í sjálfu sér má taka undir ákveðna gagnrýni sem hefur komið fram. Við verðum að tala skýrar og við verðum að miðla upplýsingum betur til fólksins því að auknar upplýsingar stuðla að því að óvissu verði eytt.

Verkefnin fram undan eru mikil að umfangi og þau eru flókin og brýn. Eitt helsta forgangsverkefni samtímans er að sjálfsögðu að koma hér á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum og stöðugleika á gengi krónunnar. Forsenda þess að íslenskt atvinnulíf geti rétt úr kútnum er að innflutningur og útflutningur komist í eðlilegt horf, að hjól atvinnulífsins taki að snúast af auknum krafti að nýju og skapi fólki störf og tekjur.

Það samkomulag sem m.a. hefur náðst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nágrannaþjóðir okkar um aðstoð er forsenda þess að uppbyggingarstarfið geti hafist. Sú óvissa sem ríkti vikum saman um það mál var óþolandi og ýtti undir þann ótta og þær áhyggjur sem alls staðar er að finna í samfélaginu.

Nú hefur þeirri óvissu verið eytt og við getum tekið ákvarðanir um næstu skref. Þau skref krefjast þess að við stöndum saman, að við stöndum saman um aðgerðir þar sem hagur fólksins og hagur fyrirtækjanna okkar er settur í öndvegi. Þau skref krefjast þess að við einhendum okkur í þau verkefni sem fram undan eru en setjum ekki kraftana í annað.

Ég tel mikilvægt að við förum í nánara samstarf við m.a. Samtök atvinnulífsins og ASÍ, við aðila vinnumarkaðarins, til að byggja upp til framtíðar. En tíminn er að sjálfsögðu eitt það verðmætasta sem við eigum í þessari stöðu. Hann verðum við að nýta. Við eigum ekki í þágu flokkshagsmuna að boða til kosninga, heldur eigum við að beina kröftunum í þann farveg fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. (Gripið fram í.)

Ég vil sérstaklega geta þess að þegar er byrjað á margvíslegum aðgerðum. Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á ýmsar aðgerðir sem til að mynda hæstv. félagsmálaráðherra hefur farið í. Hið sama má segja um fjármálaráðherra sem hefur m.a. beitt sér fyrir auknu svigrúmi varðandi dráttarvexti, dráttarvaxtagreiðslum varðandi barnabætur, skuldajöfnun varðandi barnabætur — bara sú aðgerð kostar ein og sér 950 millj. kr. — og allt eru þetta ákvarðanir teknar í þágu fjölskyldnanna.

Ég veit það líka að hæstv. samgönguráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála hefur þegar beitt sér fyrir því að fara í aukið samstarf við sveitarfélögin. Það er gríðarlega mikilvægt að sveitarfélögin fái styrk og samvinnu við ríkisvaldið til að þau geti sinnt brýnni grunnþjónustu, til að mynda með því að tryggja þjónustuna í skólunum. Allt eru þetta verkefni sem við erum nú þegar byrjuð í. Við erum á fullu í þessari vinnu til að tryggja grunnþjónustuna.

Ég get auðvitað farið í mitt eigið ráðuneyti og litið til þeirra aðgerða sem við erum að vinna að þar. Það má ekki bíða. Við verðum að huga að því hvernig við breytum m.a. lánasjóðnum svo við getum haft samspil á milli atvinnuleysisbóta og námslána þannig að fólk geti nýtt tímann þegar það dettur inn í atvinnuleysi og farið í nám.

Það verður að taka ákvarðanir strax sem beinast að því hvernig við getum til að mynda nýtt menntakerfið til skemmri tíma, hvernig við komum til móts við fólk sem er núna að missa vinnuna. Þar þurfum við að huga að ýmsu. Hvernig getur fólk sem er með litla grunnmenntun farið inn í skólakerfið? Hvernig getum við nýtt framhaldsskólana? Símenntunarmiðstöðvarnar? Ég tel mikilvægt að ég hraði þeirri vinnu sem tengist fullorðinsfræðslufrumvarpinu til þess að við getum sinnt því fólki sem hefur litla grunnmenntun. Þar verðum við líka að líta á raunfærnimatið. Hvernig getum við hjálpað fólki út úr þeim ömurlegu örlögum að þurfa að fara inn í atvinnuleysi?

Við erum smátt samfélag en við erum líka með skilvirka stjórnsýslu. Við sem erum í ríkisstjórninni berum ábyrgð á því að við bregðumst við, að við notum lánasjóðinn, að við notum Íbúðalánasjóð til að slá skjaldborg um heimilin okkar. Þetta eigum við að halda áfram að gera.

Hvernig eigum við síðan að koma til móts við það menntaða fólk sem er líka að missa atvinnuna? Við eigum að nýta háskólana. Við eigum að nýta rannsóknirnar sem þar eiga stað. Við eigum, og ég hef þegar stuðlað að því, að leita m.a. eftir stuðningi og þekkingu hjá OECD og líka Finnum sem tengist uppbyggingu á menntamálum og rannsóknum. Í þessi verkefni verðum við að fara, annars vegar með skammtímahagsmuni í huga til að lina þá erfiðleika sem fylgir atvinnuleysi en ekki síður hitt að taka ákvarðanir sem stuðla að því að slíkar ákvarðanir byggi upp samfélagið til lengri tíma litið.

Þetta skiptir allt máli þegar við erum núna í þessum önnum við að reyna að byggja upp samfélagið til lengri tíma. Það vitlausasta sem við gætum gert akkúrat við núverandi aðstæður er að eyða kröftum stjórnmálamanna og stjórnsýslunnar í kosningar. Ef ákveðið yrði að ganga til kosninga nú beindum við kröftum stjórnmálaflokkanna að öðru en einmitt þessum brýnu verkefnum sem ég hef farið inn á. Við værum að missa dýrmætan tíma og í stað þess að draga úr hinni efnahagslegu óvissu værum við að bæta við pólitískum óstöðugleika sem gæti reynst okkur mjög dýrkeyptur þegar fram í sækti.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að hlutverk stjórnarandstöðu hverju sinni og á hverjum tíma er að veita sitjandi ríkisstjórn aðhald. Nú, þegar stjórnvöld standa frammi fyrir einhverjum flóknustu og erfiðustu ákvörðunum íslenskrar stjórnmálasögu, er slíkt aðhald brýnna en nokkru sinni fyrr, að stjórnarandstaðan komi með uppbyggilega gagnrýni og bendi á aðrar hugsanlegar leiðir. Með slíkri lýðræðislegri umræðu næst besta niðurstaðan.

En stjórnarandstaðan hefur fram til þessa, á þessu þingi og á hinu síðasta líka, því miður talað í kross. Hún segir í aðra röndina að hún vilji ganga til liðs við og til samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og síðan bara alls ekki. Fyrir nokkrum vikum voru umræður í þinginu þar sem hluti stjórnarandstöðunnar sagði: Við skulum fara strax í kosningar. Síðan kom annar hluti af stjórnarandstöðunni og sagði: Bara alls ekki. (Gripið fram í.) Ég heyri að þetta er eitthvað viðkvæmt hjá framsóknarmönnum, enda tala menn í kross.

Vandamál þjóðarinnar er að stjórnarandstaðan vill eyða dýrmætum tíma, tíma sem við þurfum í uppbyggingu, tíma sem við þurfum að nýta til endurreisnar, (Gripið fram í: Ha?) heldur í að fara í oft og tíðum mjög sjálfhverfa kosningabaráttu. Við þekkjum það öll, stjórnmálamennirnir, allir stjórnmálaflokkar eru þannig. Við vitum alveg hver fókusinn er þegar við förum í kosningabaráttu. Fókusinn er á stjórnmálaflokkana sjálfa. Við skulum segja það bara alveg hreint út. (Gripið fram í: Eigum við ekki bara að hætta …?) Við eigum að nota tímann núna til að fara í endurreisn á samfélaginu. Á næstu mánuðum skiptir öllu máli að teknar verði markvissar ákvarðanir þannig að hægt sé að þoka málum í rétta átt, að uppbyggingin geti hafist. Það gerist ekki ef við förum þá leið sem stjórnarandstaðan leggur til, nefnilega að rjúfa þing eða efna til kosninga. (ÖJ: Þið hafið …) Við öll hér í þessum sal gerum okkur fulla grein fyrir því hvað það þýðir að halda úti kosningabaráttu.

Og ég segi það, hæstv. forseti: Ef einhvern tímann er mikilvægt að menn víki flokkshagsmunum til hliðar er það einmitt núna. Við verðum fyrst og fremst að nýta tímann í brýn verkefni, aðkallandi verkefni til uppbyggingar fyrir þjóðina okkar og fyrir landið okkar og fyrir börnin okkar. Að mínu mati væri allt annað ábyrgðarleysi ef við værum ekki með fókusinn á það.

Það er ekki tími fyrir kosningar.