136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Góðir áheyrendur. Frú forseti. Valdastéttin á Íslandi er hrædd. Hún er hrædd við uppgjörið sem fram undan er og hún er hrædd við kosningar. En hræddust er hún samt við fólkið. Fólkið sem flykkist út á götur og torg. Þúsundir í hverri viku. Fólkið sem skrifar í blöðin og fyllir netið. Fólkið sem heldur úti fundum og segir fréttir. Kynnir tillögur sínar og krefur svara. Fólkið sem er reitt.

Menn fara misvel með reiðina. Sumir leyfa henni að sjóða upp úr. Aðrir byrgja hana inni. Sumir eru svo gæfusamir að geta fundið henni farveg í frjórri og gagnrýnni umræðu, hugsun og sköpun og það er þetta sem valdastéttin á Íslandi hræðist. Hún hræðist endurmatið og kraftinn sem er að losna úr læðingi úti í samfélaginu. Kraftinn til að breyta og bylta gæðum græðginnar sem hefur ráðið hér og haft húsbóndavald um langt skeið.

En hræddust er þó valdastéttin við unga fólkið því það skilur hún verst. Skríll, sagði hæstv. forsætisráðherra um ungt fólk sem með táknrænum hætti hefur barist gegn ofurefli alþjóðlegra auðhringa og stóriðjustefnu til að verja íslenska náttúru og sína eigin framtíð. Ungt fólk sem hefur sýnt borgaralega óhlýðni. Beitir ekki ofbeldi. Ver sig ekki einu sinni gegn ofbeldi við handtöku en tjáir sig á sinn hátt með myndmáli og gjörningum. Táknmáli sinnar eigin kynslóðar.

Þannig var það tákn fyrir dansinn í kringum gullkálfinn þegar gulur Bónusfáni var dreginn að húni Alþingishússins fyrir hálfum mánuði. Þetta var ekki auglýsing fyrir lágvöruverðsverslun og þetta var heldur ekki lítilsvirðing við Alþingi. Þvert á móti var þetta listrænn gjörningur. Tákn þess hvernig lýðræði og þingræði hafa verið lítilsvirt í landinu á dögum græðginnar.

Alþingi Íslendinga er mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Við segjum stolt að hér starfi eitt elsta þjóðþing og löggjafarsamkoma veraldar. Alþingi er í senn elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar. Nú leggjum við stjórnarandstöðuþingmenn til hér á Alþingi Íslendinga að ríkisstjórnin fari frá. Við lýsum á hana vantrausti og krefjumst kosninga.

Við skulum muna að uppspretta valdsins í lýðræðissamfélagi er hjá fólkinu, þjóðinni, — þeim þúsundum sem nú nýta sér alla daga stjórnarskrárvarinn rétt sinn til skoðanafrelsis. Til tjáningarfrelsis, félagafrelsis og fundafrelsis. Þúsundir manna koma saman í hverri viku. Tveir stórir fundir eru bara í dag og þannig, frú forseti, mun þetta verða allt þar til ríkisstjórnin fer frá. Því það er þjóðin sem mun að lokum ráða því hvenær hún kýs. Það er þjóðin sem á að marka stefnuna til framtíðar með lýðræðislegum hætti en ekki ríkisstjórn sem löngu er rúin trausti.

Hér hefur mikið verið fjallað um aðdraganda bankahrunsins og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. En ekki tók betra við í eftirleiknum. Í stað þess að krefja eigendur bankanna um eignir upp í skuldir, sem þeir hafa steypt þjóðinni í, skrifaði ríkisstjórnin upp á, og það á bak við þing og þjóð, dýrkeypta nauðasamninga við Evrópusambandið með bros á vör og óskaði svo sjálfri sér til hamingju með árangurinn af samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 1.400 milljarðar kr. Meira en öll framleiðsla landsins í heilt ár skal nú tekin að láni með afarkostum. Svo segir formaður Samfylkingarinnar, hæstv. ráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að það sé ekki rétt að búið sé að skuldsetja næstu kynslóðir.

En er það svo? Húseigendur vita alla vega vel hvað til þeirra friðar heyrir. 240 milljarðar kr. er það sem Seðlabankinn áætlar að muni bætast ofan á húsnæðislán vegna verðbólgunnar fram á mitt næsta ár. 240 milljarðar kr. óbættir á sama tíma og húsnæði hríðfellur í verði.

Hér hefur verið sýnt fram á að 1.400 milljarða kr. lán mun strax á árinu 2012 kosta Íslendinga heil fjárlög í vexti og afborganir einmitt vegna samninganna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem krefst þess að við greiðum það mjög hratt niður. Og hvað þýðir það? Jú, það mun þýða gríðarlegan niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs sem við vitum að er merktur heilbrigðis- og menntamálum. Það mun líka þýða skattahækkanir.

En hvað með eignir banka og auðmanna, kunna nú einhverjir að spyrja. Eiga þær ekki að koma eitthvað á móti og lækka reikninginn á þjóðina? Hæstv. ráðherra bankamála hefur sagt að ómögulegt sé að vita hver niðurstaðan úr því reikningsdæmi verður. Þegar neyðarlögin voru sett trúðu menn að nú yrði gripið í taumana. Að bönkunum yrði lokað fyrir útrásarliðinu og menn látnir standa skil á skuldum sínum. Allt verður rannsakað, sagði hæstv. forsætisráðherra.

Ekkert af þessu hefur gengið eftir og hafi andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í aðdraganda bankahrunsins verið skaðlegt þá hefur ráðleysi hennar í eftirleiknum reynst stórhættulegt öllum almenningi í landinu. Nú sjö vikum síðar berast fréttir af því daglega að útrásinni sé langt í frá lokið. Menn eru enn að kaupa tryggingafélög og meira að segja banka í útlöndum. Er það von að þjóðin spyrji fyrir hvaða peninga. Á hvers reikning? Á þessum bæ hefur ekkert breyst. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt minnstu tilburði til að hreinsa út úr bankakerfinu og loka gömlu sjoppunum sem útrásarvíkingarnir áttu allir í kross og virðast enn eiga greiðan aðgang að og góða að.

Við þingmenn vinstri grænna höfum nú lagt fram frumvarp til breytinga á neyðarlögunum. Við leggjum til að Fjármálaeftirlitið geti fryst eignir manna sem áttu og stjórnuðu gömlu bönkunum, sem keyrðu þá og þjóðarbúið í þrot. Almenningur hefur nefnilega rökstuddan grun um að eigendur, stjórnendur og aðrir aðstandendur bankanna hafi auðgast með ólögmætum hætti í undanförnu gróðæri og það ótæpilega. Þetta eru klárar forvarnir. Við viljum að þegar rannsókn á bankahruninu lýkur, en hún er ekki hafin, verði eignirnar enn til staðar og þeim hafi þá ekki verið komið undan, hafi ekki skipt um kennitölu og eiganda.

Ég get nefnt stórar húseignir í miðborg Reykjavíkur og reyndar heilu göturnar sem eru í eigu aðskiljanlegra fasteignafélaga og geta við núverandi aðstæður skipt um kennitölu oft á dag. Ætlum við að líða þetta ástand áfram? Nei. (Gripið fram í: Nei.) Það ætlum við ekki að gera. Við krefjumst þess nú, sjö vikum eftir bankahrunið, að ýtrustu hagsmuna almennings og ríkissjóðs verði gætt og eignir auðmanna frystar. Þá verður það jafnt þeirra hagur sem okkar hinna að rannsókn hefjist og ljúki sem fyrst. Það skiptir mestu.

Góðir áheyrendur. Hér eru endurtekin einhver mestu mistök sem aðrar þjóðir í kreppu hafa gert. Eitt af því versta við finnsku leiðina var að fólkið gleymdist á meðan öll orkan fór í bankana. Fólkið svalt. Þá kemur fólk hér, ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og miklast af aðgerðum í þágu heimilanna og vísar til þessarar auglýsingar. Hvað skyldi vera í henni af peningum úr ríkissjóði? 21,5 millj. kr. í aukið starfslið í Íbúðalánasjóði og 1,5–2 milljarðar kr. til bílaumboðanna á landinu. Eða á ég að segja til heimila þeirra sem eiga og reka bílaumboðin á landinu? Því þetta eru jú aðgerðir í þágu heimilanna! Það kom fram frumvarp á Alþingi sem segir hvers kyns er. Það á að selja 5 þús. bíla í eigu bílaumboðanna úr landi.

Frú forseti. Ég skora á þingheim að sýna nú hugrekki. Fylgja sannfæringu sinni en ekki flokksaga. Endurreisn lýðræðis á Íslandi verður að hefjast nú þegar. Valdhafar verða að sleppa takinu á stólunum og gefa þjóð sinni orðið um framtíð Íslands.