136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:35]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mikið hefur farið fyrir orðum eins og „björgunaraðgerðir“ í dag, að menn væru í miðjum björgunaraðgerðum. Þegar einhver hefur siglt í strand þarf venjulega að bjarga honum, það held ég að fari ekki á milli mála. En ef fólkið í ríkisstjórninni finnur sig sérstaklega í því hlutverki að það sé statt í björgunaraðgerðum held ég að það sé líka vegna þess að menn hafa siglt upp á sker, siglt í strand. Þannig er, held ég, málunum komið fyrir okkur, því miður, og ber að viðurkenna það. Því miður berast sífellt fleiri upplýsingar um í hverju íslenska þjóðin er að lenda.

Ég hef nokkrum sinnum sagt í þessum ræðustóli í haust að kominn sé tími til þess að menn tali skýrt og segi satt um það sem þeir vita sannast og réttast varðandi það sem við þjóðinni blasir. Ég hef hugsað mér að tala út frá því sem ég veit best.

Á fundum fjárlaganefndar í dag var því lýst yfir af þeim sem mættu þar að allar líkur væru á því að íslenska þjóðin væri að lenda í verulegum erfiðleikum sem hún kæmist kannski út úr á árunum 2025–2027. Við værum að sigla inn í varanlegan halla á íslenskum fjárlögum til langs tíma. Við þyrftum að nota 50–60 milljarða á hverju ári eftir 2012 til að borga niður skuldir okkar og vexti. Það verður fátt annað tekist á við en að reyna að halda sjó og horfa til þess að borga skuldir eins og talað var um á fundi í dag.

Það eru allar líkur á að fjárlög næsta árs verði afgreidd með 150–160 milljarða kr. halla, hæstv. forsætisráðherra. Fræðimennirnir sem komu fyrir nefndina í dag upplýstu einnig um að þeir sæju ekkert fram undan annað en skattahækkanir, það lægi fyrir. Þeir töldu að tekjurnar af fjármagnstekjuskattinum yrðu afar litlar á næsta ári ef nokkrar. Þeir töldu að tekjuskattur af atvinnufyrirtækjum yrði sáralítill meðal annars vegna uppsafnaðs taps í atvinnugreinunum. Hverjir eru það þá sem eru eftir? Launþegar, fólkið í landinu, persónuskattarnir.

Það eru allar horfur á því að hækka þurfi skatta á næstu árum vegna þeirra erfiðleika sem við lendum nú í og við eigum að segja þjóðinni það. Það er það sem við stöndum frammi fyrir. Þá spyr ég hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra: Er það enn þá stefna Sjálfstæðisflokksins studd af Samfylkingunni á komandi árum að hér verði ekki greiddur hátekjuskattur af því fólki sem háar hefur tekjur? Það var forgangsverkefni Sjálfstæðisflokksins að afnema hátekjuskattinn á sínum tíma. Það var forgangsverkefni í skattamálunum, burt með hátekjuskattinn. Það var fyrsta aðgerðin sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í skattamálum. Ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að styðja slíka forgangsröðun áfram (Gripið fram í.) eða hyggst hann leggja álögur á þá sem hafa hæstar tekjur í þjóðfélaginu á nýjan leik? (Iðnrh.: Ég veit ekkert um það.)

Hæstv. forseti. Það verður ekki undan því vikist að segja þjóðinni satt. Það þýðir ekkert að koma hér og segja að menn séu í góðum málum og ætli að takast sameiginlega á við það sem fram undan er. Við erum ekki í góðum málum. Fram undan eru mjög miklir erfiðleikar og það á að segja fólki það. Allt annað er óheiðarlegt. Það eru mjög erfiðir tímar fram undan og það er alveg ljóst að á mörgu þarf að taka.

Hæstv. félagsmálaráðherra talaði um að stjórnarandstaðan hefði ekki lagt fram neinar tillögur til að bæta stöðu heimilanna. Skyldum við eiga von á því í Frjálslynda flokknum að ríkisstjórnin styðji tillögu um að taka upp frítekjumark varðandi lífeyristekjur sem gerðu það að verkum að eldri borgarar og öryrkjar hefðu meiri rauntekjur á næstu árum en ella væri eða ætla menn að fella það eða hunsa og láta það liggja inni í nefnd eins og alltaf hefur verið gert? Hafa ekki verið lagðar fram tillögur af Frjálslynda flokknum undanfarin ár um að afnema verðtrygginguna? Jú, það hefur verið gert. Hefur Samfylkingin tekið undir það? Nei, og ekki heldur Sjálfstæðisflokkurinn. Menn geta staðið hér í pontu og barið sér á brjóst, þeim hafi tekist svo vel upp að aldrei komi neinar tillögur frá öðrum. Þá þurfa menn að líta til baka og sjá hvað aðrir hafa lagt til.

Við höfum einnig lagt það til sem er nauðsynlegt fyrir íslensku þjóðina að afla nýrra tekna. Við höfum bent á að það væri hægt í sjávarútvegi og það skipti máli í þessari stöðu að ná í nýjar tekjur fyrir þetta þjóðfélag hvort sem það er til lands eða sjávar. Það er það sem skiptir máli svo að álögurnar á íslenskan almenning keyri ekki algerlega um þverbak.