136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Umræðurnar um vantrauststillöguna á ríkisstjórnina hafa nú staðið yfir í rúmar fimm klukkustundir. Ég hef hlustað grannt í dag og ég verð að viðurkenna að ég er ekki miklu nær um það út á hvað þessi vantrauststillaga gengur, hver rökstuðningurinn sé fyrir vantraustinu. Auðvitað vekur það athygli okkar að það er enginn rökstuðningur á pappírunum. En látum það liggja á milli hluta. (Gripið fram í.) Nei, ég geri líka ráð fyrir því að miðað við málflutninginn hér hafi menn ekki getað komið sér saman um hann, enda hefur hann (Gripið fram í.) komið mjög úr mismunandi áttum. Það sem vekur athygli okkar er að það hefur ekkert komið fram hérna hvað hafi ranglega verið gert af þessari ríkisstjórn eftir að hrunið mikla hófst. (Gripið fram í: Nú!) Voru það lögin? Voru það neyðarlögin? Nei. Voru það skilanefndirnar? Nei. (Gripið fram í.) Var það skiptingin í gömlu bankana og nýju bankana og eftirlitið með því? (Gripið fram í.) Nei, það hefur ekki komið fram. Er það vinnan við aðgerðir í þágu heimilanna? Nei, það átti bara að gera annað. Það átti að gera það öðruvísi, en það voru ekki þeir hlutir. Er það það sem er verið að vinna að því að bæta gjaldeyrismarkaðinn? Nei, það hefur ekki komið fram hér þannig (Gripið fram í.) að það hefur ekki komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar hér hvað hafi ranglega verið gert og hver sé forsendan þar af leiðandi fyrir vantraustinu (ÖJ: Ábyrgð ykkar í hruninu.) og (ÖJ: Ábyrgð ykkar í hruninu.) breytir engu ... (ÖJ: Ábyrgð ykkar í hruninu.) breytir engu ... (ÖJ: Ábyrgð ykkar í hruninu.) Það breytir engu þó að ...

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa hljóð.)

Það breytir engu þó að gammar úr Vinstri grænum hrópi hér og kalli (Gripið fram í.) — þá breytir það engu um það að þessi röksemdafærsla hefur ekki komið hér fram og skilað sér í umræðunni.

Það sem mér finnst hins vegar hafa skilað sér í þessari umræðu og vakti athygli mína var þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti á hvað þessi tillaga þeirra væri í rauninni ólýðræðisleg vegna þess að hún gerir ráð fyrir því að það verði kosið fyrir áramót (Gripið fram í: Nei.) og þar af leiðandi ... (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Tillagan gengur út á það, virðulegi forseti, að það verði kosið fyrir áramót og það vita allir sem þekkja (Gripið fram í: Þetta er rangt.) stjórnarskrána og þekkja lögin. (Gripið fram í: Þú þolir ekki sannleikann.) Og það er vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir að það verði rými fyrir önnur framboð sem gætu hugsanlega skákað einhverjum til af þeim sem eru í stjórnarandstöðunni ef þetta næði fram að ganga. (Gripið fram í: Þetta er málefnalegt.) Þetta verða menn bara að horfast í augu við að þeir eru að leggja til hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Virðulegur forseti. Þetta tvennt hefur komið skýrt fram í dag, annars vegar hvað tillagan er ólýðræðisleg og hins vegar að það hefur enginn rökstuðningur komið fyrir því hvað hafi ranglega verið gert. Hins vegar hafa menn talað um skoðanakannanir og hvernig ríkisstjórnin standi í þeim. En það geta nú ekki verið rök fyrir kosningum. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Það er vissulega þannig að þessi þjóð á í ákveðnum vanda. Hún á í ákveðnum vanda vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og það eru margir sem eiga um sárt að binda, fólk sem hefur tapað sparnaðinum sínum, fólk sem er að tapa vinnunni, fólk sem er að fá þyngri skuldabagga, fyrirtæki sem stefna í gjaldþrot. Þetta er vandinn sem við erum að glíma við og (Gripið fram í.) þetta er vandinn sem við þurfum að takast á við á næstu vikum og mánuðum. (Gripið fram í.) Það er vandinn sem ríkisstjórnin ætlar að vinna að en við ætlum ekki að láta óttann ná tökum á okkur og við ætlum ekki að taka þátt í því með stjórnarandstöðunni að ala á ótta hjá fólkinu. Hann er nægur fyrir og (ÖJ: Það eruð þið sem óttist fólkið.) það er óttinn, (ÖJ: Þið óttist fólkið.) virðulegur forseti — Ögmundur getur talað á útifundum (Gripið fram í: Hvar er lýðræðið?) en hann getur kannski látið okkur hinum eftir að tala í ræðupúltinu — óttinn étur sálina og ef fólkið gefur sig óttanum á vald þá missum við kjölfestuna og missum sjálfsmyndina. Þess vegna verðum við að takast á við óttann og við verðum að vinna okkur í gegnum þau vandamál sem við stöndum andspænis. (Gripið fram í.) Við munum safna kröftum hratt og vel (Forseti hringir.) og við munum standa fyrir því samhenta átaki sem þessi þjóð þarf á að halda til að vinna sig í gegnum þennan vanda. Hávaði, virðulegur forseti, brigslyrði (Forseti hringir.) eins og við höfum heyrt hér í dag eru engin lausn á vandanum, ekki einu sinni útifundaræður í þingsal. (ÖJ: Lýðræðið er lausnin og þið óttist það.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa gott hljóð.)