136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:38]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er einhver meiri háttar misskilningur hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar að tala um að það verði kosið á aðventunni nái tillagan fram að ganga. Það er einfaldlega þannig að nái hún fram að ganga þá er miðað við að það verði kosið um miðjan febrúar. Það er einu sinni þannig.

Hæstv. ráðherra Kristján L. Möller sagði: „Hvað mundi hafa breyst ef Jón Magnússon væri félagsmálaráðherra í staðinn fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur?“ (Gripið fram í.) Ég skal svara því. Það er einu sinni þannig (Gripið fram í.) að Jóhanna Sigurðardóttir er einn af mínum uppáhaldsráðherrum og hefur staðið vel vaktina. En það væri búið að afnema verðtrygginguna vegna þess að það er það sem ógnar helst hag heimilanna í landinu.

En það er sagt hér af talsmönnum ríkisstjórnarinnar: „Við erum stödd í miðjum björgunarleiðangri.“ Við erum stödd i miðjum björgunarleiðangri og ég spyr: Er það þess vegna sem atvinnulífið er að fara í þrot? Er það þess vegna sem fjölmargar fjölskyldur sjá fram á að geta ekki haldið húsinu sínu? Hvaða björgun hefur ríkisstjórnin við því, hvaða hugmyndir, hvaða tillögur? Engar sem máli skipta og það er það sem skiptir máli og þess vegna þurfum við breytingu. Verðbólgan æðir áfram. Verðtryggðu lánin hækka og hækka, 18% stýrivextir Seðlabanka Íslands eru á góðri leið með að drepa allan eðlilegan atvinnurekstur í landinu. Hv. þm. Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, talaði áðan um gjaldmiðilinn og sagði að gjaldmiðillinn leiddi til hæsta vöruverðs og lána í okkar heimshluta. Ég er sammála honum. Og hann sagði að um væri að ræða gjaldmiðil sem skapar skilyrði fyrir fjármagnseigendur til að mergsjúga atvinnulífið og heimilin í landinu. Ég er enn sammála hv. þingmanni. (Gripið fram í: En Vinstri grænir eru á móti.) En það er ríkisstjórnin sem ætlar að setja þennan gjaldmiðil einu sinni enn á flot og stíga nýjan dans með þessum gjaldmiðli. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þm. Árna Pál Árnason: Ætlar hann að halda áfram að styðja þessa ráðlausu, duglausu ríkisstjórn sem ætlar að hafa þennan ónýta gjaldmiðil? Ég segi: Miðað við orð og umgjörð þingmannsins þá er það gersamlega útilokað.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar segjast vera í björgunarleiðangri. Það er rangt. Ríkisstjórnin er á leiðinni að leiða nýjar hörmungar yfir þjóðina, því miður. Enn á ný á að taka dansinn í kringum flotkrónuna og láta óprúttna kaupahéðna hér sem erlendis ráða gengisþróun í landinu eins og einn hv. þingmaður stjórnarliðsins, Árni Páll Árnason, réttilega benti á. En það á enn á ný að stíga þennan vonlausa dans. Það á að stíga dansinn um ónýta gjaldmiðilinn sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ítrekað talað um. Það á að nota þá viðbjóðslegu hækju verðtryggingarinnar sem nú ógnar öryggi heimilanna í landinu. Nei, virðulegi forseti. Þetta er ekki björgunarleiðangur. Þetta er helför ráðþrota ríkisstjórnar að hagsmunum heimilanna í landinu. Það sem þarf að gera — af því að verið er að tala um og hæstv. utanríkisráðherra sagðist ekki hafa orðið var við neinar hugmyndir — það sem þarf að gera og það sem er brýnast að gera er að tengjast fjölþjóðlegum gjaldmiðli og það þarf að gefa upp á nýtt og það af sanngirni. (Gripið fram í.) Við gerum kröfu til þess. Burt með verðtrygginguna! Burt með stýrivaxtaokrið! Og burt með ríkisstjórnina!