136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek að ef meiningin er að bjarga heimilum í landinu, sem eru illa skuldsett og hafa farið illa út úr kaupum á bílum, sem nú er hvorki hægt að reka né selja, ef menn eru tilbúnir til að setja reglur um slíkar skuldsetningar, stendur ekki á okkur.

Það sem ég benti á áðan er að mér finnst ósmekkleg tenging á milli þess að bjarga heimilum í landinu og þess sem segir í greinargerðinni að aðallega bílaumboðin og bílaleigurnar séu í vandræðum vegna bíla sinna.

Ég er ansi hrædd um að bílum fækki ekki endilega á götunum, bílum á hafnarbakkanum mun fækka, það er markmiðið með þessu og það mun verða afraksturinn. Svo getum við hv. þingmaður rætt um rafmagnsbíla og bensínháka við aðrar aðstæður, það er algjörlega óskylt þessu máli.

Ég velti líka fyrir mér hvað það kosti að senda bílaflota bifreiðaumboðanna aftur úr landi og hvað umsýslan með það allt saman mun kosta. Ég hef því miður ekki mikla trú á að hægt sé að tryggja að gjaldeyririnn sem fæst með sölu bílanna erlendis geti skilað sér hingað heim. Ég er ansi hrædd um að regluverkið sem við búum við leyfi það einfaldlega ekki.