136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:54]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg í sambandi við þetta ágæta mál sem hér er aftur komið fram. Það er mál sem ég hef mikinn áhuga á og flutti reyndar þingsályktunartillögu um málið í upphafi vetrar í fyrra. Það var reyndar aldrei tekið fyrir í heilbrigðisnefnd, það eru nú þannig vinnubrögðin að þegar þingmál koma frá þingmönnum er undir hælinn lagt hvort þau eru tekin fyrir í nefndinni. Hins vegar var tekið fyrir mál frá hæstv. ráðherra og það er aðdragandi þess sem hér liggur fyrir. Hér er um vandað og mikið frumvarp að ræða sem hv. heilbrigðisnefnd fær nú til umfjöllunar og mun örugglega gera þeirri vinnu góð skil.

Ég tel að hér sé alveg gríðarlega mikilvægt mál á ferðinni sem við hefðum í rauninni átt að vera búin að koma fram með og gera að lögum fyrir einhverju síðan, þ.e. að koma á rafrænni sjúkraskrá. Af því hlýst mikil hagræðing og bætt vinnubrögð, það er ekki nokkur spurning. Þar að auki eigum við aðgang að þeirri tækni sem þarf að vera til staðar en nokkuð mörg ár eru síðan upphaflega var byrjað að þróa þetta fyrirkomulag sem lagt er til að tekið verði upp með frumvarpinu, verði það að lögum.

Af því að hv. formaður nefndarinnar, Ásta Möller, beindi orðum til mín í lok ræðu sinnar þar sem hún undraðist að ekki skyldi hafa gengið hraðar í tíð framsóknarmanna í heilbrigðisráðuneytinu að koma áformum um rafræna sjúkraskrá í framkvæmd, vissi ég um áhuga kollega minna þar sem málið var að sjálfsögðu oft rætt. Það náðist hins vegar ekki fram gagnvart fjármálaráðuneytinu að taka þar stærri skref. Þau voru ósköp lítil skrefin sem tekin voru á þeim tíma, því miður. Ég veit ekki hvort það er eitthvað breyttur hugsunarháttur nú í fjármálaráðuneytinu og hvort betur gengur að fá fjármagn til þessara mála, það væri óskandi. Ég mun fylgjast vel með því hvernig það mál þróast. Nú erum við í miklum erfiðleikum í varðandi ríkisfjármál okkar, eins og allir vita þannig að ég óttast að þó að málið verði að lögum sé björninn kannski ekki unninn, eitthvað þurfi nú að berjast fyrir fjármagninu til að ná þessu öllu saman í höfn.

Fyrir utan það hvað þetta er mikið hagræðingarmál er þetta líka mikið öryggismál vegna þess að mannleg mistök eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu, það verður ekki horft fram hjá því. En með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til að tekið verði upp held ég að megi alveg fullyrða að mannlegum mistökum mun fækka og að við fáum öruggara heilbrigðiskerfi.

Persónuverndarmálin hafa verið hér til umfjöllunar og ég hef svo sem engu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Það er eitt af því sem hugsanlega er viðkvæmt og þarf að vanda sig í því öllu saman. Hér eru gríðarlega viðkvæmar upplýsingar sem settar verða inn í kerfið. Það þarf að vera ljóst um eignarrétt og heimildir til aðgangs og þar fram eftir götunum.

Þetta er bara hið besta mál og ég vona svo sannarlega að það fari svo að hæstv. heilbrigðisráðherra verði betur ágengt að koma málinu til framkvæmda en þeim ráðherrum sem setið hafa á síðustu árum.