136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

frumvarp um sérstakan saksóknara.

[13:40]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég velti því satt að segja fyrir mér hvernig samskiptamálum er háttað hjá stjórnarflokkunum þegar hv. þm. Helgi Hjörvar spyr hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, hvernig gangi með ákveðið stjórnarfrumvarp sem lagt hefur verið fram. Hann hefði e.t.v. getað spurt flokksbróður sinn, varaformann nefndarinnar, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. Það er svo annað mál hvernig menn vilja komast að upplýsingum en ég hygg að það hefði verið auðvelt fyrir hv. þm. Helga Hjörvar að afla sér upplýsinga með því að inna menn eftir því og þá í sínum flokki eða samstarfsflokknum.

Það er nú þannig að minna er haft við varðandi stjórnarandstöðuna en hér er samt um að ræða mál sem full málefnaleg samstaða er um. Hins vegar getur menn greint á um með hvaða hætti og hvernig á að fara að í málum. Ég hef t.d. talið og gerði grein fyrir því þegar frumvarpið var lagt fram að eðlilegra væri að styrkja núverandi réttarkerfi, að styrkja þar rannsóknarmöguleika og þá saksóknara sem hafa verið skipaðir, samanber lög sem við afgreiddum á síðasta þingi um meðferð sakamála. Það er valið að fara þessa leið og fyrst þingvilji virðist vera fyrir því er ekki um annað að ræða en drífa í því að reyna að hraða málinu sem mest má verða. Við í Frjálslynda flokknum munum að sjálfsögðu greiða fyrir því að svo verði. Auðvitað eru ákveðin álitamál sem koma til skoðunar og þetta mál er þess eðlis að það verður að fá eðlilega og góða þinglega meðferð. Þar af leiðandi liggur fyrir að allsherjarnefnd á ákveðið verk eftir óunnið til að klára meðferð málsins en að sjálfsögðu verðum við að reyna að drífa okkur í að klára það og forðast að gögnum sem annars hefðu getað legið fyrir verði eytt.