136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni og rifjaði upp ýmislegt sem gerst hefur fyrr á árinu í þessum efnum. Það er ljóst að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa gert sitt ýtrasta á þessu tímabili til að reyna að styrkja og efla gjaldeyrisforðann enda nam hann nú í októberlok 409 milljörðum kr. en í árslok árið 2006 var forðinn rúmlega tvöfaldaður með lántöku upp á einn milljarð evra. Fyrir þá aðgerð var forðinn um 70 milljarðar kr., en aðeins 7 milljarðar á árinu 2001 ef ég fer rétt með. Þetta er til upprifjunar, virðulegi forseti.

Á þessu ári gerði Seðlabanki Íslands ýmsar tilraunir til að ná samkomulagi við aðra seðlabanka um fyrirgreiðslu í formi gjaldeyrisskiptasamninga eða gjaldmiðlaskiptasamninga en þegar á reyndi voru einungis norrænu seðlabankarnir þrír sem standa utan við Seðlabanka Evrópu tilbúnir í slíka samninga og leiddu þeir á endanum til þess að í maímánuði voru gerðir samningar við hvern og einn þeirra um 500 milljóna evra lánamöguleika í formi gjaldeyrisskipta. Þessir samningar voru nú nýlega endurnýjaðir, þ.e. 20. október sl., og gilda til ársloka árið 2009 og vil ég leyfa mér að fagna því.

Þessir gjaldmiðlaskiptasamningar sem gerðir voru í maímánuði höfðu strax jákvæð áhrif á markaðina. Í kjölfarið var ákveðið að leita þegar í stað á alþjóðlegan skuldabréfamarkað. Þrír erlendir og alþjóðlegir bankar voru fengnir til að hafa forustu um það mál og efnt til nauðsynlegra kynninga meðal fjárfesta víða um Evrópu í seinni hluta maí og byrjun júní. Í maí höfðu markaðsaðstæður hins vegar batnað verulega frá því sem var í mars og fram í apríl þegar þær voru með versta móti. Um það leyti sem kynningu á þessu máli var lokið snerust markaðirnir á nýjan leik og verulega þyngdi undir fæti. Vegna eindreginna ráðlegginga forustubankanna þriggja var horfið frá því að leita á markað á þeim tíma enda hefðu kjörin orðið þannig að orðspor ríkissjóðs hefði hugsanlega beðið hnekki af, m.a. með hliðsjón af lánshæfismati ríkissjóðs eins og það var þá.

Í júlí hóf Seðlabankinn hins vegar að stækka forðann með útgáfu skammtímavíxla á Evrópumarkaði og um sama leyti var gengið frá lántöku hjá nokkrum erlendum bönkum. Aðstæður á skuldabréfamarkaði bötnuðu hins vegar ekki og þangað var ekki fé að sækja. Skilyrði á þeim markaði voru slæm í allt sumar, og eru enn, og engin leið að fara í skuldabréfaútboð eða taka önnur lán. Það er mikill misskilningur sem hefur komið fram hjá einstaka manni að ríkissjóður Íslands hefði á þessum tíma getað sótt fjárhæðir sem einhverju máli skiptu á alþjóðlegan lánamarkað og lýsir slíkur málflutningur því miður ákveðnum misskilningi eða vanþekkingu á þessum aðstæðum.

Það var mjög gott samstarf um þessi mál á milli Seðlabankans, forsætis- og fjármálaráðuneytanna og fylgdust aðrir ráðherrar með eftir atvikum. Fundur sá sem gjarnan er vitnað til í febrúarmánuði þar sem bankastjórn Seðlabankans greindi frá för sinni til Lundúna, greindi okkur utanríkisráðherra m.a. frá þeirri för, snerist að stærstum hluta um það að segja frá því hverjir möguleikarnir væru fyrir íslenska ríkið að taka lán og hvernig erlendu bankarnir mætu þá stöðu á þeim tíma, snemma í febrúar eða í lok janúar. Niðurstaðan úr þeim viðræðum var sú að markaðsaðstæður væru slíkar að það væri ekki heppilegt og hugsanlega ekki mögulegt fyrir íslenska ríkið að reyna fyrir sér á alþjóðlegum lánamarkaði á þeim tíma og það gæti haft þveröfug áhrif, a.m.k. mjög óheppileg áhrif á kjör eða orðspor ríkissjóðs á þeim tíma og hugsanlegt að ekki hefði verið neitt lán að hafa þótt reynt hefði verið til hins ýtrasta.

Þannig var staðan þá og ég hef rakið hér hvað gerðist síðan. Nú er aftur staðan sú að við höfum náð samkomulagi við nokkur lönd eins og kunnugt er um að koma til liðs við okkur um lánsfjáröflun. Vænti ég að það megi allt saman fram ganga í samræmi við það sem lýst hefur verið hér í tengslum við önnur þingmál.