136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:15]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Síðast þegar að var gáð þurfti 180 kr. til að kaupa eina evru, um 100 kr. meira en fyrir rúmu ári til að kaupa þann gjaldmiðil og ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir þá góðu upprifjun og að vekja máls á þessu atriði varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn. Það liggur fyrir að því fór fjarri að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri nægur. Það sem orsakaði það bankahrun sem við urðum vitni að í byrjun október var að það skorti gjaldeyri, það skorti gjaldmiðil. Það er staðreyndin í málinu. Það kann vel að vera að illa hefði farið en það var ekki það sem olli því að bankarnir lögðu upp laupana. Það var gjaldeyrisskortur sem segir að ekki hafi verið staðið nógu vel að því að hafa nægjanlegan gjaldeyrisvaraforða.

Nú er verið að leggja af stað í nýja vegferð og að sjálfsögðu vonast allir til þess að sú vegferð geti gengið sem best. Við í Frjálslynda flokknum höfum þó lýst efasemdum um það að þarna væri farið rétt af stað. Við höfum ítrekað talað um vandamál gjaldmiðilsins, vakið athygli á því að það væri nauðsynlegt að íslenska krónan yrði tengd stærra myntkerfi. Ef við hefðum alþjóðlega mynt eða værum með tengingu við alþjóðlegt myntkerfi þyrftum við ekki stóran gjaldeyrisvarasjóð. Stór gjaldeyrisvarasjóður er afleiðing af því að við höfum mynt sem almennt er ekki gjaldgeng, mynt sem er ekki treyst. Það er út úr þeim vítahring sem við verðum að stefna, það er hið nýja Ísland.