136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

aðgerðaáætlun gegn mansali.

143. mál
[15:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Greinilegt er að mikil vinna hefur farið fram í starfshópnum og ég get ekki leynt því að ég hlakka til að fá að lesa þá greinargerð eða skýrslu sem hann kemur til með að skila af sér.

Ég hefði engu að síður vonast til þess að fá að sjá vinnuna klárast fyrr en ég vona að þess verði ekki langt að bíða að við fáum að fullgilda Palermó-samninginn og Evrópusamninginn um mansal sem ég hef beðið svo lengi eftir að yrði fullgiltur og leiddur í lög.

Auðvitað eru þeir þættir sem hæstv. ráðherra nefnir eins og að horfa þurfi til ýmissa hluta og þessi mál spanni vítt svið. Það er alveg rétt. En þegar við komum að eftirspurninni og því hvort kaup á vændi eigi að vera refsiverð þá vefst hæstv. ráðherra, að því er virðist, tunga um tönn. Ég vona og treysti og trúi því að starfshópurinn fari ofan í saumana á þessu, því í mínum huga og þeirra sem starfa mest innan þessa geira þá er það ein mikilvirkasta leiðin til að koma í veg fyrir vændi og koma fórnarlömbum mansals til verulegrar hjálpar að gera kaup á vændi refsiverð.

Það er nýkominn út mikill bæklingur sem greinir frá átta landa samstarfi sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Þar er mikið talað um eftirspurnina og það er ekki fyrr en við tökum ábyrgð á henni sem má merkja árangur í baráttunni gegn mansali. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir ætli ekki að styðja þessa markvissu viðleitni landanna í kringum okkur, þ.e. að nota virkasta tækið í baráttunni gegn mansali. Að gera kaup á vændi refsiverð.