136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

bifreiðakaupastyrkir til hreyfihamlaðra.

163. mál
[15:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um bifreiðastyrki til hreyfihamlaðra. Spurningin er svohljóðandi: Hver er stefna ráðherra varðandi bifreiðakaupastyrki til hreyfihamlaðra, bæði hvað snertir hækkun styrkja og eins niðurfellingu á grein þar sem sett eru skilyrði um að styrkþegi verði að aka sjálfur og stunda vinnu eða skóla þegar kemur að kaupum á sérútbúinni bifreið vegna mikillar fötlunar.

Það er ástæða fyrir því að þessari fyrirspurn er hreyft hér á Alþingi. Þurfi einhverjir í samfélagi okkar á ökutækjum að halda þá eru það fatlaðir einstaklingar sem geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur eins og þeir sem heilbrigðir eru að því leytinu til. Því er mikilvægt að stjórnvöld skapi öllum jöfn tækifæri til að geta átt samskipti í samfélagi sínu með því að njóta ferðafrelsis, geta komist ferða sinna og þá oftar en ekki í eigin bifreið.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum komið til móts við sístækkandi hóp fatlaðra sem þurfa að eiga sitt eigið ökutæki til að geta átt í samskiptum en því miður hefur styrkupphæðin frá hinu opinbera ekki hreyfst síðan árið 1999. Skal ég játa að á síðasta kjörtímabili fann ég fyrir sívaxandi þrýstingi frá fötluðum einstaklingum þess efnis að þessi styrkupphæð yrði hækkuð til að fatlaðir gætu keypt sér bifreiðar.

Nú er það svo að þessi hópur er ekki tekjuhár, eins og gefur að skilja, og þarf því aðstoðar við til að endurfjármagna og kaupa bifreiðar. Því er mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að þeir fái styrk frá hinu opinbera til þess.

Það er dapurlegt að segja frá því að sú milljón sem fatlaðir hafa fengið til að kaupa bifreiðar hefur ekki hækkað frá árinu 1999. Ef við tökum þróun verðlags frá þeim tíma hefur ný bifreið á tímabilinu hækkað um 62% en umrædd milljón, upphæð sem ég vil hvetja félagsmálaráðherra til að hækka, hefur ekkert hækkað.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún hafi í hyggju að hækka styrk til fatlaðra vegna bifreiðakaupa? Ég spyr líka, eins og ég sagði í upphafi máls míns, hvort ráðherrann vilji falla frá grein þar sem sett er skilyrði um að styrkþegi verði að aka sjálfur og stunda vinnu eða skóla þegar kemur að sérútbúinni bifreið vegna mikillar fötlunar. Margir fatlaðir þurfa mjög dýra bíla, sem þurfa miklar (Forseti hringir.) endurbætur eða lagfæringar, en eiga maka sem getur keyrt viðkomandi bíl. Að sjálfsögðu þurfa þeir einstaklingar (Forseti hringir.) að njóta ferðafrelsis og því spyr ég ráðherrann jafnframt að því hvort hún sé reiðubúin að fella þá grein niður?