136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

geymslumál safna.

167. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að ráða í þetta svar hæstv. ráðherra. Ég skil hana þó þannig að hún líti á það sem sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að gera úrbætur, að forgangsraða og tryggja að geymslumál safnanna verði í viðunandi horfi til langrar framtíðar. Á sama tíma getur hún ekki svarað því með skýrum hætti hvernig þessum 70 milljónum hefur verið ráðstafað. Ég les það út úr svari hæstv. ráðherra að þær hafi að hluta til farið í að bæta úr brýnni þörf Listasafns Íslands en það sé þó einungis tímabundin ráðstöfun, bráðabirgðaráðstöfun í húsi Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Eftir því sem ég best veit er það hús á sölulista og sú lausn þá ekki nema til einhverrar skammrar framtíðar. Ég sé því ekki betur en að peningarnir hafi farið í þessa bráðabirgðalausn og mögulega í einhvers konar bráðabirgðalausn á sama stað fyrir Þjóðskjalasafnið. Þar með sýnist mér að hæstv. ráðherra hafi farið illilega á svig við þær tillögur sem hún fékk í nóvember 2006, þ.e. fyrir tveimur árum síðan, þar sem raðað er niður hver séu brýnustu verkefnin og hvað það sé nákvæmlega sem þurfi að gera.

Geymsla Þjóðminjasafnsins í Vesturvör er ónýt þar sem bátarnir eru og stærstu munirnir. Hugmyndir skýrsluhöfunda ganga út á það að Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands geti á einhvern hátt samnýtt geymsluhúsnæði og í skýrslunni er lagt til að þessar tvær stofnanir fái byggingu sem henti þeim og þær geti nýtt sameiginlega. Þetta nefndi hæstv. ráðherra ekki í svari sínu.

Ég lít því svo á, hæstv. forseti, að hér hafi lítið gerst annað en að mögulega hafi einhverjir eldar verið slökktir á þessu ári sem við höfum þó haft 70 milljónir (Forseti hringir.) úr ríkissjóði í þessi brýnu verkefni.