136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

viðvaranir Seðlabankans um ástand bankakerfisins.

[11:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er grafalvarlegt ef ráðherra bankamála hefur ekki hugmynd um stöðu íslensks fjármálalífs, ef ráðherra bankamála er ekki kvaddur á fund með yfirstjórn Seðlabanka Íslands sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eiga sæti í.

Það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, ef forustumenn ríkisstjórnarinnar sem eiga að boða ráðherra sína með á svona fundi hafa ekki boðað hæstv. viðskiptaráðherra á þá. Og það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, að viðskiptaráðherra skuli ekki hafa átt nein samskipti við yfirstjórn Seðlabanka Íslands frá því í nóvember á síðasta ári. Heilt ár leið á meðan gjörningaveður gekk yfir íslenskt efnahagslíf og íslensk fjármálafyrirtæki.

Það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, að ekkert traust skuli ríkja á milli ráðherra Samfylkingarinnar og (Forseti hringir.) yfirstjórnar Seðlabanka Íslands og ég endurtek spurningu mína hvort hæstv. ráðherra treysti yfirstjórn Seðlabanka Íslands eins og málum er nú fyrirkomið.