136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[13:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Til umræðu er fyrra mál af tveimur stórmálum sem við fjöllum um um þessar mundir á Alþingi Íslendinga og varða framtíð þjóðarinnar í bráð og lengd gríðarlega miklu, þ.e. þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Síðar í dag kemur þingsályktunartillagan er varðar Icesave-reikningana svokölluðu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur í ítarlegu máli gert grein fyrir sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að því er þetta mál varðar og þarf svo sem ekki að ítreka allt sem þar kemur fram, en mig langar við þessa umræðu að gera grein fyrir helstu atriðum í umsögn 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar um tillöguna. Ég átti sæti á fundum nefndarinnar þar sem málið var til umfjöllunar og afgreitt og rita undir álit 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Ég vil fyrst tiltaka í tengslum við þetta mál að vísað er í sérstaka efnahagsáætlun stjórnvalda sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni en í henni er fjallað um helstu markmið sem stjórnvöld hafa í tengslum við fyrirgreiðsluna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.

Það vekur athygli, virðulegur forseti, að í þessu samhengi er ekkert minnst á heimilin í landinu eða íslenskt atvinnulíf sérstaklega eða hvernig á að tryggja að heimilin og atvinnulífið verði ekki fyrir þeim miklu skakkaföllum sem fyrirsjáanleg eru á næstu vikum og mánuðum. Eitt af því sem bundið var í skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við afgreiðsluna á lánafyrirgreiðslunni til Íslands var vaxtahækkun Seðlabankans. Raunar var það svo að Alþingi vissi ekkert hvaða skilmálar héngu þar á spýtunni fyrr en DV birti það skjal. Og það er auðvitað sérstakt umræðuefni hvernig Alþingi hefur verið sniðgengið í þessu máli og hvernig staðið er að því bæði gagnvart þingnefndum og gagnvart Alþingi í heild að matreiða upplýsingar og rökstuðning fyrir þeirri leið sem hér er verið að fara.

Það er ámælisvert að í nefndaráliti meiri hluta hv. utanríkismálanefndar, sem hv. 3. þm. Suðvest. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir í upphafi þessarar umræðu, kemur hvergi fram hvaða skuldbindingar verið er að leggja á íslenskt þjóðarbú og á Íslendinga til næstu ára. Engar upplýsingar eru fyrirliggjandi, a.m.k. hafa þær ekki verið sýndar þingi og þjóð, og séu þær til einhvers staðar í stjórnkerfinu hefur ekki einu sinni verið hægt að reiða þær fram á vettvangi utanríkismálanefndar. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort þingmönnum stjórnarflokkanna líður vel og hvort hv. formanni utanríkismálanefndar finnst það virðingu sinni samboðið að mæla fyrir nefndaráliti um geigvænlegar skuldbindingar íslensku þjóðarinnar til framtíðar sem blasir við öllum án þess í raun að vita hversu miklar þær verða eða hvort þjóðin getur yfir höfuð staðið undir þeim til langrar framtíðar. Geta menn með góðri samvisku gengið frá þessu máli í lok dags, hv. þingmenn stjórnarflokkanna og hv. formaður utanríkismálanefndar? Er hægt að ganga frá þessu máli í lok dags með það á samviskunni að hafa ekki haft hugmynd um hvaða bagga verið væri að binda þjóðinni og komandi kynslóðum í efnahagslegu tilliti?

Það blasir við að á síðustu dögum og vikum hefur ríkisstjórn Íslands tekið ákvörðun um að skuldsetja íslenska þjóðarbúið sem nemur allt að 1.600 milljörðum kr. eða meiru. Með þessum gjörningi er ótæpilegum skuldaklyfjum hlaðið á herðar komandi kynslóða og landsmanna allra og eins og ég sagði áðan reynist enn erfitt að fá svo mikið sem grunnupplýsingar um þau plögg sem undirrituð hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar. Eitt er þessi fræga viljayfirlýsing sem hæstv. fjármálaráðherra undirritaði í New York ásamt kollega sínum frá Hollandi og varðar að sjálfsögðu lausn Icesave-málsins sem kemur til umfjöllunar á eftir. Sagt var að það væri gert með fyrirvara um samþykki Alþingis en Alþingi sjálft fær ekki að sjá plaggið, það er leyniplagg. Það kann vel að vera að þingmenn stjórnarflokkanna hafi fengið það í hendur og viti hvað þar er um að ræða en það er ekki látið uppi. Það er eins og að vera með lögfræðing í vinnu fyrir sína hönd sem gerir samninga út og suður og skuldbindur mann án þess að láta mann vita hvað felst í þeim skuldbindingum. Ég er ekki viss um að lögfræðingurinn Bjarni Benediktsson mundi standa þannig að málum, herra forseti. Þetta eru þungar byrðar að bera fyrir ungar axlir upprennandi kynslóða og landsmenn alla sem hér er lagt til að verði samþykkt, „að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“, og menn vita ekki hvað það kostar.

Því miður hefur sýnt sig víða erlendis að skilmálar þeir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn boðar nú á Íslandi hafa dýpkað fjármálakreppur og gert þær verri í stað þess að leysa úr þeim. Sporin hræða vissulega í þessu efni hvort heldur það er í Evrópu, Asíu eða Suður-Ameríku. Það er óboðlegt að íslensk stjórnvöld gangi að slíkum skilmálum með þeim hætti sem hér hefur verið gert og endurtaki þau mistök sem víða hafa skilið eftir sig sviðna jörð. Einn liður þessara skilmála er áframhaldandi hávaxtastefna. Seðlabankinn birti á heimasíðu sinni tilkynningu um 19. töluliðinn í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá vissum við að samkomulagið væri a.m.k. upp á 19 töluliði. Síðar kom í ljós að þeir voru 26 þegar DV hafði birt þá. 19. töluliðurinn var um áframhaldandi hávaxtastefnu og stýrivextirnir voru þá þegar í lok október hækkaðir í 18% úr 12%, um 50%. Var þó ekki búið að samþykkja neitt af því sem hér er verið að leggja til að verði samþykkt en það var strax farið að vinna eftir þessum skilmálum þótt svo eigi að heita að allt hafi þetta verið gert með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er alveg ljóst að ef hagur almennings, hagur heimilanna og hagur fyrirtækjanna í landinu væri settur í forgang ætti að fara í þveröfuga átt í vaxtamálum þjóðarinnar við það sem hér hefur verið lagt upp með. Lækka þarf vexti og tryggja að verðbólguskotið, sem er fyrirsjáanlegt núna frá því í október og eitthvað fram á næsta ár miðað við spár, lendi ekki með fullum þunga á heimilunum í landinu, það er nauðsynlegt. En nú undir forustu nýfrjálshyggjuboðskapar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætla íslensk stjórnvöld að keyra í öfuga átt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu. Sú skuldaaukning sem felst í verðbólguskotinu, sú hækkun á höfuðstól húsnæðislánanna svo dæmi sé tekið sem fjölskyldurnar verða fyrir, mun sitja eftir sem framtíðarvandi allra venjulegra fjölskyldna í landinu vegna þess að höfuðstóllinn lækkar ekki. Sú hækkun sem verður á næstunni situr þar og safnar vöxtum. Og það sem ríkisstjórnin leggur til er að það megi jú taka aðeins af þessu en það skal setjast aftur fyrir og skal borgast að fullu upp þótt síðar verði og safnar vöxtum á meðan. Þannig hugsar ríkisstjórnin um hag heimilanna í landinu.

Því miður hafa stjórnvöld ekki heldur haft neina aðra áætlun í gangi. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki haft burði til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir á fyrri stigum þessa máls og hefur þess vegna siglt þjóðinni í þá stöðu sem hún er í í dag, að öll sund virðast vera lokuð. Engar varaáætlanir eða aðrar sviðsmyndir hafa verið skoðaðar nema þessi eina, að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þó hafa á síðustu vikum komið fram sjónarmið frá fagfólki, frá sérfræðingum, hagfræðingum um að e.t.v. sé óþarfi að taka þetta lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég er sannfærður um að ef menn hefðu farið með virkum hætti í það strax í upphafi að leitast við að leysa þennan vanda íslensks efnahagslífs fumlaust hefðum við hugsanlega getað fengið fyrirgreiðslu annars staðar frá, lánafyrirgreiðslu, eitthvað í líkingu við það sem nú þegar er búið að taka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum — þá er ég að tala um það sem þegar er komið í vörslu Seðlabankans — án þess að þurfa að undirgangast þessi ströngu og erfiðu skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var ekki gert og því er nú svo komið sem komið er og það er miður.

Í grein sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason skrifuðu 19. nóvember benda þeir á að forsendur sem voru fyrir hendi 24. október, þegar ákveðið var að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi breyst verulega og þess vegna sé ástæða til að efast um að taka þurfi þetta lán. Í grein þeirra segir m.a., með leyfi forseta:

„Þar er fyrst til að taka, að frá því að þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var samin fyrir meira en tveimur vikum hafa aðstæður á gjaldeyrismarkaði breyst mjög mikið. Krónan sem ætlunin var að styrkja hefur á þessu tímabili fallið um nálægt 10% á innanlandsmarkaði. Erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innan lands. Greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innan lands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að styðja við bakið á gjaldmiðli í „frjálsu falli“ er því ekki lengur til staðar. Það er því ástæða til að efast um að raunveruleg efnahagsleg þörf sé fyrir þetta lán. Að minnsta kosti eiga ýmis skilyrði sem þessu láni tengjast ekki lengur við.“

Síðan fjalla þeir einmitt um mikilvægi þess að lækka vexti og að gera tafarlausar ráðstafanir vegna afkomu heimila og fyrirtækja, m.a. með skuldbreytingum, frestunum afborgana og lánalengingum. Slíkt er hvergi að finna í forgangsröðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda, enda hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki verið þekktur fyrir það að þar sé sérstaklega hugsað um slíka hluti.

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða gríðarlega miklar skuldabyrðar sem leggja á á þjóðina, um það verður varla deilt. Um það er hins vegar deilt hvort við eigum einhverra annarra kosta völ, hvort við séum komin í slíkt öngstræti að ekki sé um annað að tefla og hvort hægt hefði verið að komast hjá þessari miklu skuldasöfnun með öðrum aðgerðum á öðrum tímapunktum í ferlinu. Um þetta getum við deilt. En alla þá fjármuni sem nú er verið að taka að láni á síðan að setja inn í Seðlabankann sem allir vita að er rúinn trausti. Hann á að taka við þessum fjármunum og ráða því hvernig þeim verður ráðstafað. Það er auðvitað sérkennilegt og kaldhæðið í sjálfu sér að svo skuli málum nú vera komið. Að ekki sé talað um að Samfylkingin, sem hvað mest hefur talað um nauðsyn þess að skipta út stjórn í Seðlabankanum, skuli standa að þessu og hæstv. starfandi utanríkisráðherra, sem er hér væntanlega einhvers staðar í húsi, verður nú að kyssa vöndinn sem hann ætlaði sér aldrei en það gerir hann.

Samkvæmt úttekt í Morgunblaðinu sem birtist mánudaginn 1. desember um skuldaklafann sem er að ríða þjóðinni á slig má búast við því að kostnaður skattgreiðenda vegna fjármögnunarþarfarinnar til ársins 2011 geti legið á bilinu 900–1.500 milljarðar kr. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir, herra forseti. Það getur bara ekki verið að þingmenn, þó að þeir séu úr hinum stóra þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar, gangi með góðri samvisku og glöðu geði þennan veg og leggi þessar byrðar á þjóðina, það er útilokað. Þess vegna er það þeim mun grætilegra að þingmenn skuli ekki spyrna við fótum þegar þetta mál kemur svona inn frá framkvæmdarvaldinu og segja: við verðum að leita allra annarra leiða til að komast út úr þessum vanda en að binda þjóðinni þessa gríðarlegu skuldabagga — og taka sér þá þann tíma í það sem þarf.

Nú hefur það gerst og hæstv. forsætisráðherra talaði um það sérstaklega jákvæðum orðum í morgun að gengi krónunnar hefði styrkst um ein 8–9% í gær og um 7% það sem af er degi, og kannski má þá segja: það er gott, þá skulum við bara hætta við þetta lán, þetta er greinilega allt á réttri leið, og forða þjóðinni frá því sem hún þarf að taka við vegna falls bankanna, vegna hruns efnahagskerfisins, því að þetta er ekkert annað en hrun. Á því bera auðvitað margir ábyrgð, það er hægt að horfa á stofnanir eins og Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, ég tala nú ekki um bankana sjálfa, en þegar allt kemur til alls er hin pólitíska ábyrgð að sjálfsögðu stjórnvalda og undan því geta þau ekki vikist. Seðlabankinn starfar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra er yfirmaður Seðlabankans samkvæmt lögunum um Seðlabankann. Forsætisráðherra skipar formann bankastjórnar Seðlabankans samkvæmt lögunum um Seðlabankann. Hin pólitíska ábyrgð er þar og hana verður hæstv. forsætisráðherra að axla fyrr eða síðar. Þjóðin hefur misst traust á Seðlabankanum en hún hefur líka misst trúna á ríkisstjórn Íslands. Þegar sagt er að ekki sé hægt að auka á efnahagskreppuna með því að búa til stjórnmálakreppu þá er staðreyndin sú að það er stjórnmálakreppa í landinu. Hver höndin er uppi á móti annarri í ríkisstjórninni og hún aðhefst sáralítið. Það er stjórnmálakreppa og hana á að leiða til lykta á þann eina lýðræðislega hátt sem við höfum í okkar samfélagi og það er að ganga til kosninga og gefa þjóðinni kost á að kveða upp sinn dóm um hvaða gildi og hvaða leið hún vill að farin verði út úr þeim ógöngum sem við erum því miður komin í og við verðum að vinna okkur út úr öll saman.