136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef gluggað í þessa tilskipan Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar. Þar er gert ráð fyrir að þær stofnanir sem vinna á þeim markaði, bankarnir sem taka á móti innstæðum, eiga að standa undir tryggingunum en ekki skattgreiðendur. Það er stefnubreyting hjá Evrópusambandinu að Bretar og Hollendingar settu í gang að skattgreiðendur ættu að greiða þetta. Greinilegt er að fjármálaráðherra Breta er búinn að uppgötva síðan að það gengur ekki upp að láta skattgreiðendur borga þetta. Samt fullyrðir hv. þingmaður að íslenskir skattgreiðendur eigi að borga. Hann gengur sem sagt lengra en fjármálaráðherra Breta.

Það var ekki bara að allt Evrópusambandið sameinaðist um að kúga Íslendinga — jafnvel hæstv. starfandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, kyssti vöndinn — heldur létu þeir okkur bíða eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í margar vikur. Það var mjög kostnaðarsamt og gerði það að verkum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem á að aðstoða þjóðir, skaðaði íslenska þjóð í staðinn fyrir að aðstoða hana. Það er allt gert með aðstoð þessara svokölluðu vinaþjóða okkar í Evrópusambandinu sem hafa ekki stærri skilning á Íslandi en þetta eftir að landið er búið að missa meginhlutann af bankakerfi sínu á einni viku. Það ætti eiginlega að duga þjóðinni þótt ekki sé bætt við gífurlegum skuldbindingum annars staðar frá vegna Icesave-reikninganna.