136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Þetta er bara hreinn þvættingur og hér er verið að rugla saman tveimur algjörlega óskyldum málum. Þarna var verið að vitna í ræðu sem hæstv. utanríkisráðherra flutti um þetta tiltekna mál, þ.e. Icesave-málið. Þar rakti hún að það væri betra að leita samninga en að koma málinu fyrir dómstól því að það væri ekki samstaða um neina dómstólaleið og hún væri ekki augljós. Það er það sem þarna er verið að tala um.

Það sem hér er búið að kalla fram í er að utanríkismálaráðherra hefur fallið frá því að bera hryðjuverkalögin og beitingu þeirra undir dómstóla, það er bara þvættingur, rakalaus staðhæfing. Það sem hér var lesið upp lýtur að allt öðru máli, það lýtur að Icesave-málinu, lágmarksinnstæðunni og réttarágreiningi um það mál. (Gripið fram í.) Með öðrum orðum, hv. þm. Atli Gíslason fer með staðlausa stafi og truflar málefnalega umræðu í andsvörum. Þetta er þvættingur sem ekki er fótur fyrir. Þvert á móti undirstrikaði hæstv. utanríkisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar nú nýverið mikilvægi þess að fram kæmu upplýsingar t.d. frá formanni bankastjórnar Seðlabankans til að hægt væri að halda áfram undirbúningi að þeirri málsókn sem þegar er hafinn undirbúningur að, það er búið að ráða lögfræðifyrirtæki til þess. Ég skil ekki hvaða meinloku hv. þm. Atli Gíslason er með í þessu máli, hann hefur greinilega ekki kynnt sér málið.

Það er í undirbúningi að beita öllum tiltækum úrræðum gagnvart Bretum vegna hryðjuverkalaganna. Á hinn bóginn er lagt til í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir — og að því álitamáli lutu ummæli utanríkisráðherra sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vitnaði til — að lagt er til að fara samningaleið varðandi Icesave-skuldbindinguna, varðandi þá þætti er lúta að lágmarksinnstæðutryggingunni. Ef þetta er á reiki í huga hv. þm. Atla Gíslasonar verður hann að fara að lesa sér til í málinu. (AtlG: Þingmaðurinn er ólesinn.)