136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[19:10]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestum megi vera ljóst að Bretar frystu eignir Íslendinga, þ.e. Landsbanka Íslands, væntanlega með því sjónarmiði að eiga upp í Icesave-skuldirnar eins og við höfum kallað þær í orðræðunni. Varðandi lausn þeirra skuldbindinga sem við ætlum að standa að að leysa þá væri auðvitað langbest ef eignirnar stæðu undir þeim. Ég árétta að verðmæti eignanna er mögulega það mikið að það standi undir heildarskuldbindingunum. Ég er sammála hv. þm. Eygló Harðardóttur að líklegast væri það besta lausnin að við stæðum þannig endanlega uppi skuldlaus og ekkert félli á þjóðarbúið. Þetta eiga auðvitað að vera samningsmarkmið okkar Íslendinga þegar við göngum til samninga. Þess vegna sagði ég áðan að við verðum að tryggja að það séu gagnkvæmir hagsmunir að hámarka þessar eignir. En ég ætlaði svo ekki að spyrja neitt frekar út í ræðu hv. þingmanns.