136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:08]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa umræðu. Það hefur nefnilega mikið verið rætt um fjölmiðla og fjölmiðlamarkað á Alþingi á undanförnum árum, en líklega hefur aldrei á síðustu áratugum verið jafnrík ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála á fjölmiðlamarkaðnum og nú.

Aðstæður í íslensku efnahagslífi hafa valdið íslenskum fjölmiðlafyrirtækjum eins og öðrum fyrirtækjum gífurlegum búsifjum. Það á auðvitað við um Ríkisútvarpið rétt eins og önnur fjölmiðlafyrirtæki, hvort sem um er að ræða ljósvakamiðla eða prentmiðla. Á síðustu vikum og mánuðum hefur mörgum tugum starfsmanna verið sagt upp hjá Skjánum, Árvakri, 365 miðlum, Viðskiptablaðinu og nú síðast Ríkisútvarpinu. Öll eiga þessi fyrirtæki í miklum rekstrarerfiðleikum og óvissa ríkir um framtíð sumra þessara miðla.

Fjölmiðlafyrirtæki eru mjög næm fyrir breytingum í efnahagslífinu, enda eru auglýsingatekjur mikilvægur þáttur í rekstri þeirra. Þróunin á auglýsingamarkaðnum hefur versnað til muna og má segja að í október og nóvember hafi auglýsingamarkaðurinn dregist saman um ein 40% samanborið við síðasta ár. Að auki hefur gengisþróun verið fjölmiðlum óhagstæð en aðföng í erlendri mynt, hvort sem um er að ræða erlent sjónvarpsefni eða pappír, eru stór kostnaðarliður. Og eins og hv. þingmaður kom inn á eru fyrirtækin sum hver með skuldir í erlendri mynt en ekki síður hefur innlendur fjármagnskostnaður reynst fyrirtækjunum þung byrði. Það á auðvitað við um Ríkisútvarpið eins og önnur fjölmiðlafyrirtæki, það hefur ekkert með rekstrarform Ríkisútvarpsins að gera eins og ýjað er að. Þvert á móti held ég að segja megi að hlutafélagaformið geri Ríkisútvarpinu mun auðveldara fyrir að bregðast við þrengri aðstæðum. Og þær hafa svo sannarlega þrengst, herra forseti.

Fjármagnskostnaður hefur verið langt umfram áætlanir og hefur gengið hratt á eigið fé félagsins af þeim sökum svo segja má að það sé nær uppurið. Þá hefur Ríkisútvarpið ekki farið varhluta af samdrætti á auglýsingamarkaði og eitt af því sem íþyngir Ríkisútvarpinu verulega eru þær lífeyrisskuldbindingar sem fylgdu með inn í félagið.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel að það verði að skoða alvarlega hvort ekki sé rétt að aflétta þeim af félaginu hvernig sem það verður síðan gert, t.d. með kaupum á húseigninni í Efstaleitinu, til að rétta við eiginfjárstöðu þess.

Ég var ósátt við það á sínum tíma og ég tel að þetta sé hlutur sem okkur beri að skoða og hv. menntamálanefnd gefst tækifæri til þess þegar hún fær til umfjöllunar frumvarp um RÚV.

Ég hef að sjálfsögðu miklar áhyggjur af þessari stöðu á fjölmiðlamarkaðnum almennt, ekki eingöngu af Ríkisútvarpinu. Það er hverju lýðræðissamfélagi lífsnauðsynlegt að þar starfi öflugir og óháðir fjölmiðlar sem eru í stakk búnir til að vera virkir þátttakendur í upplýsingamiðlun og þjóðfélagsumræðu. Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu skipaði ég fyrir nokkrum vikum starfshóp sem falið var það verkefni að fara yfir stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum og skoða þá sérstaklega stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Það er ekki sjálfgefið að Ríkisútvarpið afli sér tekna með auglýsingum. Það er mjög mismunandi hefð í þeim ríkjum Evrópu þar sem reknar eru almannaþjónustustöðvar.

Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun minni að ég tel að takmarka eigi svigrúm Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það er mikilvægara nú en oftast áður til að auka svigrúm sjálfstætt rekinna fjölmiðla sem njóta ekki góðs af ríkisframlagi og eru nú í sárum vegna hruns auglýsingamarkaðarins og þróunar gengis- og fjármagnskostnaðar. Slíkar breytingar mega hins vegar ekki verða til þess að veikja Ríkisútvarpið. Ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að hafa hér öflugt ríkisútvarp sem nú líkt og aðrir fjölmiðlar hefur orðið að taka ákvarðanir um sársaukafullan niðurskurð. Öllum breytingum á möguleikum Ríkisútvarpsins til að afla sér tekna með auglýsingum verða því að fylgja auknar tekjur á öðrum sviðum, enda er ekki markmiðið að veikja RÚV, heldur miklu frekar að veita öðrum fjölmiðlum svigrúm á markaði. Það skiptir okkur miklu máli.

Að undanförnu hefur verið rætt um að ekki hafi verið staðið við þær skuldbindingar sem gerðar voru við Ríkisútvarpið á sínum tíma í tengslum við nýtt rekstrarform og þjónustusamning. Ef hins vegar er litið á þróun framlaga og greiðenda frá árinu 2006 hafa tekjur RÚV nokkurn veginn staðið í stað. Það verður sömuleiðis að hafa hugfast að Ríkisútvarpið, rétt eins og aðrar stofnanir og félög, getur ekki ætlað sér í rekstri tekjur umfram það sem fjárlög segja til um. Þær tekjur eru háðar nokkurri óvissu, þótt ekki væri nema vegna þess að ekki er hægt að ganga að þeim fjölda vísum sem greiðir afnotagjaldið.

Það eru margar spurningar, herra forseti, sem ég á enn eftir svara. Það má einnig velta fyrir sér hvort ekki hefði átt að reyna að fjölga hlutastörfum og fækka þar með uppsögnum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef var rætt innan Ríkisútvarpsins að fara þær leiðir en raunin var sú að í mörgum tilvikum er um að ræða vaktastörf þar sem óhentugt hefur reynst að koma við hlutastörfum. Í sumum tilvikum hefur þó verið samið um að lækka starfshlutfall eða yfirvinna skorin niður. Þá er rétt að gera ráð fyrir að 150 millj. skili sér í sparnaði með tímabundinni lækkun launa.

Þrátt fyrir hagræðingu á ýmsum sviðum tel ég, herra forseti, (Forseti hringir.) ekki vera hættu á að það bitni á fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að fréttastofur landsins geti sinnt öflugum fréttaflutningi við þær óvenjulegu aðstæður sem eru í þjóðfélaginu og ég treysti Ríkisútvarpinu til að verða áfram sterkt eins og það hefur verið fram til þessa.