136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:20]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil halda því fram úr þessum ræðustól að það hafi verið markviss ásetningur Sjálfstæðisflokksins síðustu tæp 20 ár að veikja Ríkisútvarpið svo sem mest hefur mátt. Þessari fullyrðingu minni til fulltingis vil ég nefna nokkrar tölur.

Ég hef tekið saman þróun afnotagjalds Ríkisútvarpsins frá 1987 þegar Stöð 2 hóf göngu sína. Allan þann tíma hefur Ríkisútvarpið þurft að berjast blóðugum hnefum fyrir því að fá hækkun á afnotagjaldi og nú er svo komið að á þessum 20 árum sem liðin eru síðan Stöð 2 fór í loftið hefur áskriftargjald Stöðvar 2 hækkað 43% meira en afnotagjald Ríkisútvarpsins.

Árið 1985 voru áskrift að Morgunblaðinu og afnotagjald Ríkisútvarpsins á svipuðum nótum. Þá var áskriftargjaldið að Morgunblaðinu 4.800 kr. en afnotagjald af Ríkisútvarpinu 5.300 kr. Þessar tölur eru enn þá mjög sambærilegar því í dag er ársafnotagjald af Ríkisútvarpinu 35.940 og ársáskriftargjald af Morgunblaðinu 35.400 þannig að enn er þetta allt saman á pari. En á sama tíma er áskriftargjald Stöðvar 2 68.200 kr. Það sem ég er að reyna að sýna fram á hér er að Ríkisútvarpið hefur átt undir högg að sækja þegar það hefur sótt um hækkanir á afnotagjaldi til að standa undir kostnaði við lögbundið hlutverk. Ríkisútvarpið hefur verið olnbogabarn Sjálfstæðisflokksins og því miður studdi Framsóknarflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn til dáða þegar því var breytt í ohf. fyrir tæpum tveimur árum. Nú krefst ég þess að Ríkisútvarpinu verði aftur breytt í ríkisstofnun og þjóðinni fengin aftur þessi mikilvæga menningarstofnun því þjóðin vill hafa Ríkisútvarpið sitt. Hún á það og hún á að hafa það og hér á að hafa skoðanir á Ríkisútvarpinu.