136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við vinstri grænir erum ekki í ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur valið að halda öllum upplýsingum fyrir sig, leynt bæði þjóð og þing sínu makki hvað þetta varðar. Ég get bent hv. þingmanni á þjóð sem var reiðubúin að koma til stuðnings og samstarfs við Íslendinga án þess að lúta afarkostum og kúgunarkjörum Evrópusambandsríkjanna, Bretlands, NATO eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það voru Færeyingar. Hefði ekki verið nær og hefðum við ekki viljað horfa til þess að þær Evrópuþjóðir sem eru búnar að vera vinaþjóðir okkar í mörg ár hefðu komið til okkar á sama grunni og Færeyingar og boðið samstarf en ekki undir kúgunum? (Gripið fram í.) Hvað sagði hæstv. forsætisráðherra? Hann sagði: Við látum ekki kúga okkur, en hann lét samt kúga sig og er hann forsætisráðherra hv. þingmanns.