136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg sama hvað hv. þm. Gunnar Svavarsson klifar oft á því að að þakka minni hlutanum í fjárlaganefndinni svakalega mikið. Hann þakkar og þakkar minni hlutanum en það er ekki „alibí“ eða fjarvistarsönnun fyrir vinnubrögðunum sem eru hér í gangi. Alls ekki. Vinnubrögðin eru fyrir neðan allar hellur, virðulegur forseti. Tillögur koma þann ellefta, út með þær þann tólfta. Enginn gat skoðað þær. Enginn gat áttað sig á þeim. Ekkert var hægt að fara yfir þetta. Ekkert hægt að ræða við þá sem áttu að gefa umsagnir. Þetta eru fáránleg vinnubrögð, virðulegur forseti.

Mér skilst að það eigi að koma einhver bandormur í viðbót. Er það ekki, virðulegur forseti? Ágætt væri ef hv. þm. Gunnar Svavarsson upplýsti okkur um hvort von er á einhverjum bandormi.

Ég heyrði ekki betur áðan í sexfréttum en að frétt númer eitt eða tvö væri að skera ætti niður framlög til bænda um 700 eða 800 millj. kr. Ég heyrði alla vega einhverja slíka frétt en get ekki farið algerlega með þetta. En hér sé ég að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mættur. Kannski vill hæstv. ráðherra upplýsa okkur um þetta.

Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Engar forsendur eru fyrir fjárlagafrumvarpinu. Það hefur ekkert verið skoðað og svo á hugsanlega að koma bandormur með fleiri slæmum fréttum, miðað við það sem ég heyrði áðan í sexfréttum. Þar var talað við formann Bændasamtakanna sem bar sig að sjálfsögðu mjög illa yfir þessu og sagði að þeir bændur sem tóku lán hefðu margir hverjir gengið út frá einhverjum forsendum, sem nú væri verið að kippa burt. Ég vil spyrja hv. þm. Gunnar Svavarsson, sem getur talað hér í lok umræðunnar, hvort eigi að afgreiða einhverja slíka tillögu hér á korteri eða svo. Eru það vinnubrögðin sem hann ætlar að kvitta upp á í framhaldinu?