136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:27]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áskil mér allan rétt til þess að hafa allar skoðanir sem ég vil á efnisinnihaldi þess sem hér er flutt af einstaka hv. þingmönnum eins og ég gerði í ræðu minni. Ég veit nú ekki betur en að margir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi uppi oft hér í ræðustóli ýmsar móralíseringar og gagnrýni á það hvað öðrum kann að finnast um það sem þeir segja og því tek ég þetta ekki sérstaklega til mín.

Hins vegar varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Varnarmálastofnun var ég eingöngu að benda á að það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði í morgun varðandi fjárlagafrumvarpið. Þá var tillaga hans eingöngu sú að skera niður útgjöld þar og flytja þau eitthvert annað. Það var ekkert minnst á hugmyndir um skatta. Það var engin sýn á það hvert ætti að stefna í ríkisfjármálum. Það var einfaldlega það, hæstv. forseti, sem ég var að reyna að kalla hér eftir af jafnábyrgum stjórnarandstöðuflokki og Vinstri grænir eru.