136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:45]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að einhver launung sé yfir því hverjar heildarskuldir ríkissjóðs verði líklega á næstu árum. Það hefur komið fram í ræðum hæstv. forsætisráðherra og tvisvar í ræðum mínum. Ég geri ekki kröfu um að hv. þingmaður hlusti á þær en hann ætti alla vega að hlusta á það sem hæstv. forsætisráðherra segir þegar hann er spurður út í þetta af stjórnarandstöðunni.

Komið hefur fram að það er líklegt að þær skuldir sem hv. þingmaður talar um geti numið landsframleiðslu eins og hún var. Hv. þingmaður segir síðan að ríkisstjórnin hafi tekið einhverja sérstaka ákvörðun, væntanlega til að níðast á þjóðinni og stjórnarandstöðunni, um að axla þessar skuldir.

Hvað heldur hv. þingmaður, sem er forustumaður bæði í lífeyrissjóðum og verkalýðshreyfingunni, að gerist þegar ríkissjóður er rekinn með halla? Þá skapast skuld. Menn þurfa að mæta henni með því að taka lán og það lán þarf að greiða. Mundi hv. þingmaður gera það með einhverjum öðrum hætti? Hv. þingmaður fer beinlínis fram á að slíkar lántökur verði meiri með því að óska eftir því að hallinn verði meiri.

Hv. þingmaður veit ósköp vel um þær skuldir sem líklegt er að við þurfum með einhverjum hætti að taka á okkur vegna Icesave-málsins. Hv. þingmaður veit um þá 2,2 milljarða dollara sem við tökum að láni og notum líklega vegna lánsins frá IMF. Vonandi þurfum við ekki að nota þær lánalínur sem að auki bjóðast okkur frá ýmsum vinaþjóðum okkar. Þetta getur hv. þingmaður lagt saman.

Hv. þingmaður getur síðan lesið ræður forsætisráðherra. Hann getur lesið gögn sem hans eigin formaður hefur lesið upp úr, t.d. samkomulagið, eða viljayfirlýsinguna, við Hollendinga. Þá getur hann gert sér vaxtabyrðina í hugarlund. Ég get ekki sagt honum nákvæmlega hver hún er núna vegna þess að við erum að reyna að lækka hana en hv. þingmaður getur gert sér grein fyrir því og þá er hann ekki ýkja fjarri því sem hann sjálfur hefur verið að tala um hér í kvöld.

Þá spyr ég hv. þingmann: Er það ekki ærin ástæða til að ganga fram (Forseti hringir.) af nokkurri hörku varðandi niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs? Nei, segir hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Hann vill auka við lántökurnar og þar með vill hann auka við vaxtabyrðina, auka byrðarnar sem (Forseti hringir.) kynslóðir komandi tíma eiga að axla. Það er það sem hann er að segja.