136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á þessu ári kom fram ný skýrsla frá OECD þar sem m.a. var lagt mat á íslenska heilbrigðisþjónustu. Þar var sagt að hún væri öfundsverð. Það er rétt að framlög til heilbrigðisþjónustu hafa vaxið í takt við almenna velmegun og tekjuaukningu í landinu undanfarin ár. Það er eðlilegasti hlutur í heimi. Við stöndum ekkert verr að vígi í mörgum atriðum en norrænu þjóðirnar, og það er vel.

Sjúklingar hafa borgað um 18% af þessum kostnaði úr eigin vasa, en OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa bent á — og hvers vegna skyldi það hafa verið? — að kannski þyrfti að leggja gjöld á sjúklinga þar sem engin gjöld væru fyrir. Og hvar skyldi það vera, herra forseti? Það er á sjúkrahúsunum. Við höfum hingað til ekki rukkað menn þegar þeir eru komnir á nærbuxunum inn á spítala og upp í sjúkrarúm. Við höfum borgað þetta áður, á meðan fólk er fullfrískt hefur það lagt þessa peninga inn til að geta notið sjúkrahúsþjónustu og læknisþjónustu þegar það þarf á henni að halda. En nú skal því breytt, nú skal leggja innlagnargjald eða fæðisgjald á sjúklinga á sjúkrahúsum landsins og ég fullyrði að það er vegna tilmæla OECD og vegna kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta hefur ekki verið hér upp á borðum áður.