136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú greiðum við atkvæði um liði sem falla undir dómsmálaráðuneytið, sem snúa að réttarfarskerfinu á Íslandi. Ég veit ekki hvort þingmenn gera sér almennt grein fyrir því hvað verið er að gera réttarfarskerfinu með þeim miklu skerðingum sem felast í þessu frumvarpi. Ég vek athygli á því að framlag vegna málskostnaðar í opinberum málum skorið niður um 50 millj. kr., opinber réttaraðstoð 30 millj. kr., framlag til ríkissaksóknara skorið niður. Ég hélt að hér væri allt að fyllast af sakamálum, þá er skorið niður í þessu embætti. Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála skorið niður um 30 millj. kr., framlag til Fangelsismálastofnunar um 55 millj. kr. og yfirmaður þar á bæ segir að það framlag sem ætlað var í upphaflegu frumvarpi dugi ekki til rekstrar. En þá er komið hér fram og sagt að við verðum að spara, við verðum að skera niður vegna hallans á fjárlögum. Þetta er ekki hinn eiginlegi halli á fjárlögum sem hér birtist. (Forseti hringir.) Hann birtist í skuldsetningunni í útlöndum sem þýðir að vaxtakostnaður á næsta ári, bara vaxtakostnaðurinn á næsta ári sem ríkisstjórnin er að skrifa upp á verður yfir 100 milljarðar kr. (Forseti hringir.) en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir þeim fyrir verkum og hann hefur skipað þeim að skera niður réttarfarskerfið á Íslandi.

Hæstv. forseti. Þetta (Forseti hringir.) eru alvarlegir hlutir sem eiga sér stað.