136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:29]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008. Ég vil ljúka því af að setja fram gagnrýni á það hversu seint frumvarpið kemur fram og að það skuli ekki hafa verið komið fram áður en fjárlaganefnd lauk umfjöllun um frumvarp til fjárlaga 2009 til 2. umr. Ég hefði talið að það hefði þurft að vera þannig og leyfi mér að gagnrýna þessi vinnubrögð. Auðvitað er það svo að aðstæður eru sérstakar, eins og við vitum, og ætla ég því ekki að vera mjög harður í gagnrýninni á hæstv. fjármálaráðherra, ég skil aðstöðu hans. Engu að síður hefði verið nauðsynlegt að fá frumvarpið fyrr fram.

Ég vil beina til hæstv. ráðherra þeirri spurningu hvort fjárlaganefnd muni fá öll þau gögn sem nauðsynlegt er að fá við umfjöllun málsins. Því miður var það ekki þannig þegar við fjölluðum um frumvarp til fjárlaga í fjárlaganefndinni eins og við höfum farið yfir hér í umræðunni, það skorti mjög upp á að fjárlaganefnd hefði fengið upplýsingar og gögn til að fara yfir það mál. Ég tek þar með undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni og fer fram á að fjárlaganefnd fái yfirlit yfir rekstrarstöðu stofnana áður en hún lýkur umfjöllun um frumvarpið.

Ég vil einnig beina því til hæstv. ráðherra að hann fari yfir það hér — hann fór að einhverju leyti yfir það í framsögu sinni — hvað eigi eftir að koma fram við vinnslu frumvarpsins í fjárlaganefnd áður en ætlunin er að ljúka umfjöllun um málið og gera það að lögum.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum yfir einstök atriði í frumvarpinu, mun fyrst fjalla aðeins um tekjuáætlunina. Eftir að hafa skoðað það lauslega óttast ég að tekjuáætlunin sé ofáætluð í frumvarpinu. Mér sýnist að ekki hafi verið gerðar á henni miklar breytingar frá þeirri áætlun sem kom fram í gögnum með fjárlagafrumvarpinu í haust þrátt fyrir þær hamfarir sem orðið hafa í fjármálakerfi okkar og efnahagskerfi. Ég óttast að við eigum eftir að sjá þá tekjuáætlun sem hér liggur fyrir eitthvað lægri þegar upp verður staðið, og geri ráð fyrir því að svo verði.

Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að hallinn á fjárlögum ársins verði um 5 milljarðar kr. Einnig kemur fram í upplýsingum í frumvarpinu að sá halli er svipaður því sem gert er ráð fyrir í auknum útgjöldum vegna verðlagsáhrifa og gengisfalls krónunnar. Við sjáum þar einn kostnaðarlið sem tengist beint gjaldmiðli okkar, því gengisfalli sem orðið hefur á honum að undanförnu. Það eru í þessum tillögum hátt í 5 milljarðar kr. Við sjáum síðan annan lið sem er hækkaður mjög í frumvarpinu frá því sem var í fjárlögunum, það eru vaxtagjöldin, þau hækka um 50%, verða tæpir 30 milljarðar. Að sjálfsögðu koma því ýmis merki fram í frumvarpinu um það sem gerst hefur hér að undanförnu en ég ítreka að við verðum að fá upplýsingar um það hverju við megum eiga von á til viðbótar.

Ég ætla aðeins að fjalla hér, hæstv. forseti, um stofnanirnar og beina sjónum sérstaklega að heilbrigðiskerfinu. Gert var ráð fyrir að áætlaður halli á heilbrigðisstofnunum væri eitthvað vel yfir 2 milljarða, þar af eru öldrunarstofnanir um 1 milljarður ef þær upplýsingar eru réttar sem ég hef, og á Landspítalanum var uppsafnaður halli áætlaður eitthvað yfir 2 milljarða. Að vísu eru í frumvarpinu tillögur um að taka að hluta til á uppsöfnuðum halla stofnana í heilbrigðisgeiranum en síðan er gert ráð fyrir því í fjárlögum ársins 2009 að flatur niðurskurður verði á þessar stofnanir. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann og ríkisstjórnin eða viðkomandi ráðherrar sjá fyrir sér að rekstrarforsendur þessara stofnana haldi á næsta ári. Við vitum að innbyggður halli er í þessu kerfi og mér þætti fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra fara yfir það hvernig hann sér það fyrir sér að þetta haldi, hvaða vandamál við sjáum fram á í því sambandi. Ég er þeirrar skoðunar að leggja þurfi fram nýja stefnu um heilbrigðisþjónustuna út frá breyttum aðstæðum í ríkisfjármálunum. Mér sýnist því mjög stórt og mikið verkefni fram undan í þeim efnum ef þetta á allt að ganga eftir eins og menn leggja upp með.

Eins og fram kom hér áðan þarf auðvitað að fá niðurstöðu í það hvernig á að meðhöndla bæði útgjöld og eins skuldbindingar varðandi bankahrunið sem hér varð. Ég geri ekki lítið úr því sem hæstv. ráðherra sagði að það sé flókið mál að leysa úr því og finna út úr því hvernig það á að liggja en allt gerðist þetta á árinu 2008 þannig að ég geri ráð fyrir því að að minnsta kosti einhver hluti af þessu máli öllu saman komi fram í þessum fjáraukalögum þegar upp verður staðið. Ég ætla svo sem ekki að gera kröfur á ráðherrann um frekari upplýsingar um það hér í þessari umræðu, við munum fara yfir það í fjárlaganefndinni. En ég beini því til hæstv. ráðherra og bið hann kannski að íhuga það frekar en að svara því beint hér og nú hvort ekki sé rétt að taka saman greinargerð um allt er varðar hrunið á bönkunum og yfirtöku þeirra og aðkomu Seðlabankans og ríkissjóðs, og þá er ég tala um greinargerð sem fjallar fyrst og fremst um það sem tengist ríkissjóði í þessu sambandi og einnig Fjármálaeftirlitinu. Ég bið hæstv. ráðherra bara að hugsa þetta fyrir okkur og með okkur.

Hv. þm. Jón Bjarnason fór hér yfir mál sem ég hafði ætlað mér að nefna og ég ætla að gera það þrátt fyrir allt vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, ég sé að ekki er gert ráð fyrir neinum aukafjárheimildum þangað. Ég hef hins vegar upplýsingar um að þeir sem stjórna þeim skóla hafi gert ráð fyrir því að auknar fjárheimildir kæmu, þeir hafa verið að vinna í fjármálum skólans. Ég mun fylgja því eftir í fjárlaganefndinni og er ekkert sérstaklega að beina því í þessari umræðu til hæstv. ráðherra, við munum fylgja því eftir í störfum nefndarinnar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið á þessu stigi. Frumvarpinu var dreift í gær og við erum aðeins farin að fjalla um það í fjárlaganefndinni en munum gera það enn frekar næstu tvo dagana þó að tíminn sé stuttur. Við munum taka ítarlegri umræðu um þetta mál við 2. umr.