136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[14:51]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að það liggur ljóst fyrir af hálfu virtra fræðimanna og nefni ég þar helst Björgu Thorarensen, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, að þessir samningar séu nauðungarsamningar og ógildanlegir.

Það er líka alveg ljóst að við stóðum fullkomlega réttilega að innleiðingu tilskipana sem gilda um ábyrgðina á innlánsreikningum erlendis sem hér heima. Það var meira að segja svo að ríkisendurskoðandi óskaði eftir því að reikningsinnstæðan í tryggingarsjóðnum yrði færð út úr ríkisreikningi vegna þess að hún ætti ekki heima þar.

Hvað varðar fyrirspurnina um hvort málið hafi verið rætt í allsherjarnefnd þá hefur það lítið sem ekkert verið rætt. Málið hefur verið á sviði utanríkismálanefndar til þessa að ég best veit.