136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[16:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig alveg á því sem hv. þm. Pétur Blöndal er að segja varðandi kostnaðinn og að það geti verið flókið að halda þessu aðgreindu eða skilgreina nákvæmlega það sem á bak við er hverju sinni. Ég get alveg tekið undir með honum að það er skynsamlegt að reyna að hafa þessi mál tiltölulega skýr og einföld í sniði þannig að ekki komi upp ágreiningur um túlkun og annað slíkt.

Hitt er svo annað mál að það er líka rétt að það kostar utanumhald um bókhaldið, reikninga og að senda þá út. Það getur vel verið að þar með séu tekjurnar fyrir þetta þegar farnar þótt ekki sé nema bara í pappírsgjaldi, póstsendingarkostnaði o.s.frv. Maður veit ekki nákvæmlega hvernig þetta er.

Ég fellst alveg á þessar skýringar hans að þessu leyti til en hefði talið að í nefndaráliti hefði þurft að gera grein fyrir þessum viðhorfum vegna þess að þetta atriði kemur mjög sterkt fram í umsögn Sambands sveitarfélaga sem má segja að sé hinn armur opinberu stjórnsýslunnar. Hann segir í andsvari við mig að hér sé verið að setja lög og að reglugerðin hljóti að taka síðan mið af þeim en það er ekkert sem segir að það sé sjálfsagt. Það viðhorf hefði þess vegna líka þurft að koma fram í nefndaráliti, það er þá hluti af skýringum á bak við málið og væri tilefni til þess fyrir Samband sveitarfélaga á grundvelli slíkra sjónarmiða í nefndaráliti að fara þess á leit við forsætisráðuneytið að reglugerðin væri löguð að því sem hér er ákveðið í lögunum.