136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að það sé byrjað á eldri borgurum og öryrkjum. Það er byrjað á því sem einfaldast er, sparnaði í yfirstjórn ríkisins, 20% samdrætti í utanríkisþjónustunni. Síðan er velferðarkerfinu hlíft sem kostur er. Þær skerðingar sem þar koma inn einskorðast við þá sem eru betur stæðir. Þetta er hins vegar gríðarlega erfitt val.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu og víða í samfélaginu og við aðila vinnumarkaðarins er mjög mikilvægt. Ég ætla bara að minna hv. þingmann á að ég talaði fyrir því í löngu viðtali í Markaðnum í Fréttablaðinu í ágústmánuði að það væri nauðsynlegt að koma slíkum formlegum samráðsvettvangi á sem allra fyrst og ég held að það hefði hjálpað okkur í gegnum þessa erfiðleika. En í þessum erfiðleikum dynur margt á og ef vettvangurinn er ekki þegar til er kannski tímafrekt að koma honum á.

Ég er ekki að biðja stjórnarandstöðuna um að koma með heildstæðar lausnir, ég veit alveg að kannski eru ekki forsendur til þess. Ég geri samt þá kröfu að menn horfist í augu við efnahagslegar afleiðingar tillagna sinna eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerir alls ekki. Tillaga hennar um taumlausan ríkissjóðshalla langt umfram það sem innlendur lánsfjármarkaður ber er ávísun á stórfellda kjaraskerðingu almennings í landinu, annaðhvort með taumlausum vaxtahækkunum eða óðaverðbólgu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð verður að horfast í augu við það.

Það er ekki hægt að hugsa um að það eigi bara að passa ríkið og sveitarfélögin og þá megi fyrirtækin fara út á guð og gaddinn eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan, að það sé hægt að ætla lífeyrissjóðunum það að fjármagna ríkið og sveitarfélögin og banna þeim að fjármagna fyrirtækin í landinu. Fyrirtækin eiga ekki aðgang að neinum peningum í þessu landi í dag öðrum en þeim sem lífeyrissjóðirnir eiga. Það er ekki hægt að tala svona eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerir. Það er það sem ég var að gagnrýna, (Forseti hringir.) ekki að ætlast til þess að stjórnarandstaðan kæmi með heildstætt nýtt fjárlagafrumvarp.