136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[22:15]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur gert grein fyrir nefndaráliti sem við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd, flytjum sameiginlega og vísa ég til þess. Ég vil aðeins ítreka nokkur ákveðin atriði.

Í fyrsta lagi kom þetta fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008 fram fyrir nokkrum dögum. Í því var í raun ekki neitt sem ekki lá fyrir í byrjun október og því ástæðulaust að draga svo lengi sem ríkisstjórnin gerði að leggja það fram. Fjáraukalagafrumvarp á að taka á vanda eða því sem upp hefur komið innan ársins en er ekki ætlað að vera fjárlög ársins. Mörg af þeim atriðum sem koma inn við afgreiðslu fjáraukalaga voru fyrirséð fyrir ári síðan og við fluttum þá tillögur um þau. Fyrir lá við afgreiðslu fjárlaga í fyrra að heilbrigðisstofnanirnar voru sendar út í árið með fyrirsjáanlegum halla og innbyggðum rekstrarvanda eða rekstrarfjárskorti, sem og háskólarnir, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands, sjúkrahúsin, öldrunarheimilin. Samkvæmt fjárlögum er slíkt ekki heimilt. Allt tal um að refsa forstöðumönnum fyrir að fara ekki að fjárlögum er út í hött þegar fjárlögin eru vitlaust unnin.

Af reynslu minni gera forstöðumenn og þeir sem standa að rekstri stofnana við erfiðar aðstæður sitt besta. Yfirleitt er ekki við þá að sakast ef stofnanir fara út fyrir fjárheimildir sínar. Það er yfirleitt sök Alþingis, fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar. Þegar nú er komið til móts við halla allmargra stofnana er það í sjálfu sér vel. En einnig það virðist vera mjög handahófskennt. Í öðru orðinu er sagt að ætlunin hafi verið að taka u.þ.b. tvo þriðju af áætluðum rekstrarhalla stofnana í velferðarkerfinu, menntastofnana, heilbrigðisstofnana og öldrunarstofnana en þegar farið er nánar ofan í það virðist sú regla vera meira út og suður. Það verður líka að segjast eins og er að gögn, sem fjárlaganefndin þarf að hafa til að geta unnið verk sitt vel og lagt mat á fjárþörf stofnana, hafa ekki legið fyrir.

Allra síðustu klukkutímana hafa komið slitrur frá einstökum ráðuneytum um áætlaðar tölur einstakra stofnana. Það er fjarri því að gögn séu komin frá öllum, eins og nefndin hefur beðið um, en þau gátu og áttu að liggja fyrir fyrir meira en mánuði eða tveimur mánuðum síðan. Bókhaldskerfi og samtengt tölvukerfi ríkisins á fjárhag stofnana ætti að vera orðið það fullkomið að vandalaust ætti að vera að fá þessar upplýsingar. Þetta virðist vera bein tregða, jafnvel meðvituð, í að skila gögnum til fjárlaganefndar þannig að hún geti unnið starf sitt. Það hefur raunar verið verra í haust en nokkurt annað haust.

Ég vil jafnframt leggja áherslu á að síðan ég kom á þing hefur ríkisvaldið aldrei komið fram af jafnmiklum hroka og valdbeitingu gagnvart Alþingi og það hefur gert undanfarnar vikur. Ég hef aldrei kynnst jafnaumu og -lélegu þingræði og lýðræði við vinnubrögð við fjárlagagerð. Þetta er hrein valdbeiting af hálfu framkvæmdarvaldsins á öllum sviðum.

Eins og kom fram í nefndaráliti minni hlutans og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði grein fyrir kemur fjáraukalagafrumvarpið nánast óbreytt að öllu leyti til 2. umr. frá því sem var mælt fyrir við 1. umr. Gögn, tillögur og upplýsingar um fjárhagsstöðu, tekjur og skuldbindingar ársins liggja ekki fyrir við 2. umr. fjáraukalaga, sem er aðalumræðan. Þessi vinnubrögð eru alveg forkastanleg. Auðvitað áttu allar helstu upplýsingar að liggja fyrir.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rakti mjög vel í nefndarálitinu að upplýsingar vantar um þær miklu skuldbindingar sem ríkissjóður hefur tekið á sig í haust, yfirtöku bankanna, framlag til eigin fjár bankanna, kostnað við bankahrunið, kostnað við Fjármálaeftirlitið, skilanefndir og hvað það nú er. Einnig vantar yfirlit yfir hvaða lán ríkissjóður hefur tekið, hvaða skuldbindingar hann hefur skrifað upp á. Við höfum kallað eftir bréfi sem hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen á að hafa skrifað undir í New York um skuldbindingar vegna svokallaðra Icesave-reikninga í Hollandi. Það bréf hefur ekki fengist sýnt. Hins vegar er ljóst að Icesave-skuldbindingarnar í Bretlandi og Evrópulöndunum eru gríðarlega miklar en enginn veit hversu miklar þær eru. Þegar beðið er um upplýsingar hvað það varðar hefur fjárlaganefnd, eins og aðrir, orðið alfarið að styðjast við það sem birtist í blöðum. Engar upplýsingar koma inn í nefndina. Í Morgunblaðinu í morgun er sagt, með leyfi forseta:

„Um 150 milljarða bakreikningur. Kröfuhöfum Landsbanka skýrt frá að þeir fái sitt ekki greitt. Talið að 300 milljarða vanti upp á Icesave-skuldir.“

Fjárlaganefnd er ekki greint frá því að verið sé að ræða gríðarlegar skuldbindingar við erlenda aðila sömu daga og fjárlaganefnd afgreiðir fjárlög ársins. Nei, nefndin verður að lesa um það í blöðunum. Þær upplýsingar sem ekki koma í íslenskum blöðum og fréttamiðlum verður að sækja í erlenda fréttamiðla ef fylgja á eftir. Í áðurnefndri frétt er viðtal við Lárus Finnbogason, formann skilanefndar Landsbankans, þar sem hann rekur möguleika á að hafa eitthvað upp í Icesave-skuldirnar. Hann segir viðbúið að kröfuhafar fari í mál og reyni að hnekkja neyðarlögunum sem voru sett um forgangsröðun á kröfur. Þessar upplýsingar koma ekki inn í fjárlaganefnd sem fjallar um þessi mál, nei, þær koma í blöðum. Þetta er lýsandi dæmi fyrir framkomu stjórnvalda gagnvart Alþingi og nefndum þingsins.

Þegar spurt er hverjar upphæðirnar eru sem búið er að skuldbinda okkur fyrir á þessu ári vegna Icesave-reikninga, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra skuldbindinga um endurfjármögnun banka þá koma engin svör og við förum í 2. umr., aðalumræðu, fjáraukalaga án þess að nokkur svör komi við því. Þessi vinnubrögð eru öll alveg með ólíkindum og ég efast um að á byggðu bóli — einhvern tíma var þessu í þingsal líkt við Simbabve og Mugabe og ég veit ekki hvort við eigum að draga sömu líkingar þar en hvorki ber mikið á ákvörðunum og umræðu um mál þjóðarinnar inni í þingsal né að upplýsingar berist fyrst þangað.

Hins vegar er athyglisvert að sjá gæluverkefnin í frumvarpinu. Mitt í kreppu og þrengingum þegar okkur finnst við vera að sigla inn í erfiða tíma koma gæluverkefnin fram. Keyra á fram einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sjúkratryggingastofnun, uppskiptingu í tryggingamálum og forsætisráðuneytið fer fram á 25 millj. kr. framlag á fjáraukalögum vegna ráðgjafarkostnaðar við undirbúning og breytingu í heilbrigðis- og tryggingamálum. Það er til viðbótar 30 millj. sem gert var ráð fyrir á fjárlögum ársins þannig að 55 millj. fara til ráðgjafar til forsætisráðuneytis við uppskiptingu á þessum málaflokki og undirbúningi á einkavæðingarferli í heilbrigðismálum. Þannig að gæluverkefnin koma fram.

Ég hjó líka eftir því að í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu koma gæluverkefni fram. Fyrir matvælalöggjöf Evrópusambandsins — allt sem lýtur að Evrópusambandinu — er einmitt lagt til 26,4 millj. kr. framlag vegna undirbúningskostnaðar vegna yfirtöku á gerðum í viðauka EES-samningsins og vegna ESB-löggjafar um matvæli og fóður, til viðbótar 70 millj. kr. sem voru inni á fjárlögum ársins 2007 þannig að þar er hægt að tína inn peninga. Yfirtaka á matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Til eru peningar fyrir öllu sem lýtur að Evrópusambandinu og innleiðing á löggjöf. Það fer að styttast í 100 millj. kr. á þessum lið einum vegna yfirtöku á Evrópusambandsreglugerðum, lögum sem hafa ekki enn verið samþykkt og voru drepin góðu heilli í vor og hafa ekki enn komið fram. Samt er hér komið yfir 100 millj. kr. framlag til að innleiða þessi lög. Hver heilvita maður sér hvernig þessi forgangsröðun hefði verið. Væri ekki nær að þessar 100 millj. kr. hefðu runnið til og dregið úr skerðingum á búvörusamningnum við bændur? Nei, leggja skal 100 millj. kr. í að innleiða löggjöf Evrópusambandsins án þess að lögin hafi einu sinni verið samþykkt. Svona má finna víðar. Einmitt í þessum þrengingum skína gæluverkefni ríkisstjórnarinnar í gegn.

Herra forseti. Eitt vil ég nefna í lokin sem hefur komið fram í umræðunni. Allt í einu á síðustu dögum ársins á að stokka upp heilbrigðisstofnanir á Vestur- og Norðurlandi (GMJ: Suðurlandi.) og allt í einu koma tillögur um að búa til eina heilbrigðisstofnun frá Langanesi í Húnavatnssýslur og aðra fyrir Vesturland frá Hólmavík og á Akranes, allt án nokkurs samráðs við heimamenn. Þessi myrkraverk hafa farið fram í pukri eftir að orðið er dimmt á kvöldin og engir hafðir með í samráði, ekki heimamenn, allt í einu er rokið í þetta. Liggur á að hleypa öllu í uppnám. Er ekki nóg fyrir þessar stofnanir og heilbrigðisþjónustuna út um land að glíma við erfiða rekstrarfjárstöðu þótt hæstv. heilbrigðisráðherra setji þær ekki líka í uppnám í einkavæðingardraumum sínum með svo forkastanlegum vinnubrögðum. Ég vil spyrja hv. 1. þm. Norðvesturkjördæmis, forseta þingsins, Sturlu Böðvarsson, hvort það sé með vilja og vitund hans að heilbrigðismálum á Norðurlandi og Norðvesturlandi er hleypt í uppnám á síðustu dögum ársins.

Á þingmannafundum fyrr í haust kom fram og hv. þm. Sturla Böðvarsson upplýsti að hann hefði slegið öllum hugmyndum á frest, a.m.k. fram á mitt næsta ár, og allir þeir sveitarstjórnarmenn tóku undir að þetta væri ekki tími til að fara í slíkar uppstokkanir. Svo skyndilega kemur hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hefur það markmið að rústa til og einkavæða heilbrigðiskerfið, allt í einu eru komnar fram hugmyndir og tillögur um algera uppstokkun á heilbrigðisþjónustunni í landshlutanum án þess að nokkur viti af, hvorki starfsfólk, sveitarstjórnarfólk eða íbúar á svæðunum. Ég spyr forseta þingsins og fyrsta þingmann kjördæmisins hvernig hann ætli að bregðast við. Við áttum ágætan fund í dag með fulltrúum sveitarstjórnar Skagafjarðar sem höfðu miklar áhyggjur af þessum hroðvirknislegu vinnubrögðum sem komin væru í gang og þeir hefðu spurnir af og töldu að hagsmunir íbúanna væru þar ekki hafðir í fyrirrúmi frekar en eitthvað annað og voru einmitt með góðar hugmyndir sem þeir vildu ræða en fengu ekki aðkomu til þess fyrr en í dag að þeir komu þeim sjónarmiðum á framfæri við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég skora á ríkisstjórnina og hæstv. heilbrigðisráðherra að stöðva þessa illa unnu og hroðvirknislegu tillögu sem þarna er á ferð. Stöðva líka áformin um sjúkratryggingastofnun. Nú er ekki tími til að fara í stórfelldar uppstokkanir og skapa aukna óvissu í þessum grunnþáttum heilbrigðismála og við eigum þess vegna að fara okkur hægt í þeim efnum.

Herra forseti. Ekkert nýtt liggur fyrir í frumvarpinu frá því sem kom fram við 1. umr. Það er sorglegt og lýsir því kaosi, því stjórnleysi, þeim vandræðagangi sem er á ríkisstjórnarheimilinu í efnahagsmálum þjóðarinnar og speglast vel í þessum vandræðagangi í frumvarpinu. Ég vona að fyrir 3. umr. verði komnar ítarlegri upplýsingar svo hægt sé að fjalla um niðurstöðu ársins hvað tekjur, gjöld og áætlanir varðar.