136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi að þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um fjáraukalögin, hv. framsögumanni minni hluta, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, og þingmanninum Jóni Bjarnasyni. Með þeim í minni hlutanum var hv. þm. Magnús Stefánsson en einnig þakka ég fyrir hugleiðingar frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Ég væri til í að fara með nokkuð langa ræðu um hitt og þetta í ræðum þessara hv. þingmanna, ekki þó endilega til þess að glíma um ákveðin atriði þar sem skoðanaágreiningur er en frekar að koma með hugleiðingar um fjárlagagerð og það vinnulag sem Alþingi hefur við gerð fjárlaga. Hef ég fjallað um það áður í ræðum mínum við fjáraukalög og fjárlög.

Þrátt fyrir að ég haldi að aðeins hafi nú miðað í breytingaferlinu tel ég samt sem áður að enn sé nokkuð langt í land að ná fram því vinnulagi sem ég hefði viljað sjá. Það er kannski hægt að lýsa því með hugleiðingum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi nýjar stofnanir og stjórnsýslubreytingar. Ég get tekið undir þau sjónarmið að þegar eru settar á fót nýjar stofnanir eða fyrirtæki eða hvað sem er verður oft og tíðum ákveðinn viðbótarkostnaður. Hugmyndin er sú að til lengri tíma litið geti menn afskrifað slíkan byrjunarkostnað og bætt vinnulagið hjá ríkinu.

Ég þekki vel til í sveitarfélögunum en þar er vinnulagið iðulega með öðrum hætti. Þegar fara á í stjórnsýslubreytingar eða setja af stað nýjar deildir eða verkliði er yfirleitt öllum boðið að koma að hlutunum. Það er yfirleitt þannig að sem flestir sveitarstjórnarmenn heima í héraði hafa tækifæri til þess að tjá sig um málin bæði í meiri og minni hluta og taka síðan sameiginlega ákvörðun um það sem gert er. Ég vil því segja eins og áður að ríkið er í sjálfu sér ekkert öðruvísi stjórnsýslustig en sveitarfélögin, þetta eru bara tvö ólík stjórnsýslustig, virðulegi forseti. Ríkið mætti taka sér sveitarfélögin að mörgu leyti til eftirbreytni í vinnubrögðum.

Við sjáum það einnig í fjárlagagerðinni í samanburði við fjárhagsáætlun sveitarfélaganna að nú lýsa jafnvel stærstu sveitarfélög landsins því yfir að allir aðilar í pólitíkinni hafi komið að gerð fjárhagsáætlunar, jafnvel að allir aðilar heima í héraði — svo að ég noti nú það orðasamband — séu sammála þeim meginmarkmiðum sem koma fram í fjárhagsáætluninni, þeim meginlínum og jafnvel útsvarshækkunum í samræmi við það sem boðað hefur verið í tengslum við bandorminn. Allir flokkar koma að slíku.

Vinnulagið hér á þingi er hins vegar með öðrum hætti. Það einskorðast af því að þingið er að nokkru leyti matað af framkvæmdarvaldinu og flestar upprunalegar tillögur koma þaðan. (ÁI: Kokgleypa þær.) Síðan er það hlutverk þingsins að fjalla um málin og oft og tíðum að breyta og bæta, koma með nýtt. Ég held að þetta vinnulag megi vera með einhverjum öðrum hætti. Það er alla vega mín skoðun eftir að hafa verið hér í 18 mánuði að þetta geti verið með öðrum hætti og ég vonast til þess að þingið geti breytt þessu, ekki bara við fjárlagagerðina heldur við svo fjölmargt annað.

Ég er kannski orðinn svefndrukkinn enda búinn að vera lokaður inni í margar vikur en ég held að það eigi að vera okkur leiðarljós, sérstaklega þegar harðnar á dalnum. Eins og einhvern tímann hefur verið sagt verða til fjölmörg tækifæri þegar það gerist. Þá verða menn að hafa opinn huga og vera tilbúnir til þess að beita nýju vinnulagi og vinnubrögðum og um leið að auka þann trúnað og traust sem á að vera á milli aðila þó að menn hafi ólíkar pólitískar skoðanir því að það er svo margt sem við getum verið sammála um.

Ég þekki það úr fjárlaganefndinni — ég ætla ekki að fara með mjög langa ræðu en vil nú samt koma þessu frá mér — að þar ná menn sáttum um fjölmörg mál og yfirleitt enda flest málin í góðri sátt. Þeir eru í sjálfu sér alveg sammála um ýmsa hluti eins og til að mynda það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom að varðandi EXPO-sýninguna í Kína. Ég hef verið gagnrýninn á slík vinnubrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins. Ég tel það ekki ásættanlegt gagnvart þinginu þegar framkvæmdarvaldið fer með slíkar ákvarðanir að vera ekki í stakk búið að kynna þær þinginu og óska eftir heimild. Þannig á það annars að vera. Við höfum ákveðin fjárreiðulög og ákveðnar reglugerðir í framhaldi af fjárreiðulögunum og við eigum að geta tileinkað okkur það vinnulag sem lagt er upp í fjárreiðulögunum.

Það á líka við um rekstur stofnana og stundum er eins og menn haldi að fjárlögin séu eitthvað öðruvísi en önnur lög. Fjárlögin eru auðvitað fjárheimildarlög og við samþykkjum þar fjárheimildir. Síðan er það okkar að meta hvort fjárheimildirnar séu réttar. Þá kem ég að öðru máli sem er mér mikið hugðarefni. Það er upplýsingastreymi til Alþingis.

Ég hef tekið eftir því að við á þinginu höfum ekki nægileg tækifæri til þess að nálgast þær upplýsingar sem eru í upplýsingakerfum ríkisins, heldur eru þær síaðar, ef svo má segja, berast með haustskipunum, og málin deyja drottni sínum. Ég tel að á grundvelli eftirlitshlutverks Alþingis um framkvæmd fjárlaga eigi Alþingi að hafa beinan aðgang að upplýsingakerfunum, það eigi að vera mögulegt að gera það í gegnum fjárlaganefndarsviðið. Þar eru starfsmenn starfandi bæði fyrir stjórnarmeirihlutann og minni hlutann og eiga að geta fengið þær upplýsingar úr kerfunum. Það er hægt að aðgangsstýra þeim upplýsingum þannig að menn geti fengið þær upplýsingar hvenær sem er enda á ekki að vera neinn trúnaður á slíkum upplýsingum fyrir þingmenn. Þingmenn eiga að geta meðhöndlað upplýsingarnar innan vissra marka eins og þeir gera iðulega í öðrum málum. Ég tel að framkvæmd fjárlaga væri mun skýrari ef þetta væri mögulegt. Ég hef unnið ötullega að því að koma þessu á og ég vona að ég komi þessu einhvern tímann í gegn eins og vilji er fyrir í fjárlaganefndinni.

Að öðru leyti vil ég ekki fjalla mikið meira um þessa hluti. Ég ítreka að það eru atriði sem standa út af sem horft er til við 3. umr., til að mynda uppsafnaður rekstrarhalli m.a. hjá öldrunarstofnunum, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og fleiri stofnunum sem verið er að skoða og við óskuðum eftir sérstökum upplýsingum um. Vandamálið við þessar stofnanir er að sumar eru að hluta stofnanir ríkisins en aðrar eru sjálfseignarstofnanir þannig að sjóðstreymið hefur farið fram á annan hátt en eðlilegt er með eins og til að mynda hjá flestum sjúkrastofnunum. En hins vegar finn ég fyrir ríkum vilja til að mæta halla ársins í ár og hann er oft og tíðum uppsafnaður til margra ára.

Ég vil sérstaklega víkja að ákveðnu atriði í lokin sem tengist fjárheimild til bóta vegna misgjörða á vistheimilunum fyrir börn en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 125 millj. kr. fjárheimild. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að sérstök nefnd muni taka afstöðu til bótakrafnanna. Nú er það svo að ekki er ljóst hvort þessar bótakröfur verði lægri eða hærri en 125 millj. En ef þær verða hærri hefur það orðið að samkomulagi að leysa það sem sérstakri 6. gr. heimild í fjárlögum en hún náðist hér á elleftu stundu. Ég vona að þingheimur allur geti stutt það mál enda mjög mikilvægt að fyrir séu þá fjárheimildir til þess að ljúka þeim málum með hliðsjón af því sem ég sagði áðan um ýmis verkefni sem farið hefði verið fram með án þess að hafa heimildir. Með því tel ég að þingið horfi til framtíðar ef niðurstaðan verður hærri en þessar 125 millj. kr. og sé þar af leiðandi búið að búa sér til varnargirðingar um heimildarfærsluna.

Að öðru leyti get ég og vil ítreka að góður samhljómur var um breytingartillögurnar í nefndinni en vissulega hefðum við viljað hafa meiri tíma. Varðandi það álag sem verið hefur á nefndarmönnum, og þá sérlega okkur sem stjórnum nefndinni, að eftir nokkur ár mun ég segja að þessi vinna hafi verið algjör kleppur. En ég vona hins vegar að við komumst í gegnum þetta og fáum þær upplýsingar sem við höfum óskað eftir á elleftu stundu eins og verið hefur alla þessa viku.