136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að hún taldi að með þessu frumvarpi hefði Samfylkingin gefið afslátt af þeirri hugmynd sinni að ný lög yrðu afturvirk eins og hún orðaði það, þ.e. næðu til þeirra sem þegar væru farnir að taka rétt samkvæmt lögunum frá 2003, og nú hefði hún gefið afslátt af því sem hún hefði ekki verið tilbúin til að gefa þegar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og var með frumvarp í smíðum um þessi mál.

Þetta er misskilningur hjá þingmanninum vegna þess að það sem málið snerist um á þeim tíma var að Halldór Ásgrímsson var ekki tilbúinn til að láta það ákvæði nýrra laga sem þá hefði orðið að veruleika um að menn gætu ekki á sama tíma þegið laun og eftirlaun hjá ríkinu, ná til þeirra sem þegar voru farnir að taka eftirlaun og voru líka með laun hjá ríkinu. Í þessu frumvarpi eru tekin af öll tvímæli um að það nái til þeirra sem þegar eru farnir að taka eftirlaun og eru með laun hjá ríkinu.

Það segir hér í athugasemd um 8. gr. um þetta mál:

„Gildir það jafnt um þá sem þegar hafa hafið töku eftirlauna og þá sem hefja slíka töku síðar.“

Það eru því tekin af öll tvímæli í 8. gr. þessa frumvarps um að það nær eftir 1. júlí á næsta ári einnig til þeirra sem eru með laun hjá ríkinu og taka eftirlaun samkvæmt lögunum frá 2003. Frumvarpið nær til þeirra og verður skerðing hjá þeim eftir 1. júlí.