136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[09:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allar götur frá því að lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara var breytt árið 2003 hafa staðið miklar deilur um þau. Nú koma þau til kasta Alþingis að nýju. Í flestum tilvikum, að mínu mati, halda í allt of ríkum mæli flokkslínur við atkvæðagreiðslu á Alþingi. Ef rík ástæða er í einhverju tilviki til þess að þau flokksbönd bresti er það í þessu máli. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að nafnakall verði viðhaft við fyrstu breytingartillögu með þessu frumvarpi þannig að afstaða sérhvers þingmanns komi berlega í ljós. Fyrsta atkvæðagreiðslan mun fara fram um það grundvallaratriði hvort hér eigi að halda sérréttindi um þá hópa sem lögin taka til, ráðherra, alþingismenn, forseta Íslands og (Forseti hringir.) svokallaða æðstu embættismenn ríkisins, að þeir eigi að búa við sömu lífeyriskjör og almennt gerist hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.