136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. ráðherra um aðgangseyri að sjúkrahúsunum eða niðurskurð og forgangsröðun hæstv. ráðherra í heilbrigðismálum og áhuga á einkavæðingu þar. Ég var að spyrja um hrein tiltekin atriði sem lúta að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Það er ekki skylt að sameina þær. Það er lagaheimild að gera það og þá undir einhverjum ákveðnum formerkjum. Það er ekki skylt og það er misskilningur hjá ráðherra ef hann heldur að honum sé skylt að gera það. (Gripið fram í.)

Okkur finnst það svo sem nöturlegt, íbúum á Norðvestur- og Norðurlandi og Norðausturlandi á svæðum sem eru búin að taka á sig neikvæðan hagvöxt á undanförnum árum vegna ofþenslunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hér hefur verið vaðið áfram með þeim hætti, að nú falla skuldirnar á þjóðarbúið. Íbúar á Norðvesturlandi bera ekki ábyrgð á því. Íbúar á Norðausturlandi bera ekki ábyrgð á því. En þeir eiga líka að vera þeir fyrstu sem taka á sig skerðinguna, sem taka á sig óvissuna í skipulagsbreytingum sem þýðir bara niðurskurð, eins og hæstv. ráðherra vék að, án nokkurs samráðs við heimafólk, án nokkurs samráðs við sveitarstjórnir, án nokkurs samráðs við starfsmenn heilbrigðisstofnana.

Ég spyr hæstv. ráðherra einfaldlega: Ætlar hann að stöðva þetta ferli nú sem var sett í gang með svona gríðarlegum sameiningum og gefa heimafólki, þess vegna þingmönnum kjördæmisins, sveitarstjórnum, starfsmönnum sjúkrahúsanna, tækifæri til að koma að borðinu og ræða sín mál og meta hvað er best (Forseti hringir.) fyrir það en ekki best fyrir ráðherrann?